Skallagrímur fann enga höfuðlausn gegn herskáum Skagfirðingum

Pétur fór fyrir sínum mönnum í kvöld. MYND: DAVÍÐ MÁR
Pétur fór fyrir sínum mönnum í kvöld. MYND: DAVÍÐ MÁR

Lið Skallagríms og Tindastóls mættust í VÍS-bikarnum í körfubolta í Fjósinu í Borgarnesi í kvöld. Borgnesingar spila í 1. deildinni í vetur líkt og undanfarin tímabil og þeir sáu aldrei til sólar gegn liði Tindastóls í kvöld. Lokatölur voru 61-112 og Stólarnir því komnir í 16 liða úrslitin.

Í stuttu máli þá komust heimamenn aldrei yfir í leiknum, Bess og Badmus komu liði Tindastóls í 0-4 og Arnar Smári minnkaði muninn fyrir Skallana með þristi. Eftir að Skallar minnkuðu muninn í 6-11 eftir ríflega fjögurra mínútna leik gerðu Stólarnir tólf stig í röð. Staðan var 16-25 að loknum fyrsta leikhluta og heimamenn náðu að minnka muninn í fimm stig, 23-28, snemma í öðrum leikhluta en þá skildu leiðir á ný en þó munaði aðeins 16 stigum í hálfleik. Staðan 33-49. Stólarnir skoruðu síðan að vild í þriðja leikhluta sem vannst 19-39 og staðan því 52-88 að honum loknum.

Það fengu að sjálfsögðu allir leikmenn Tindastóls að láta ljós sitt skína í kvöld og allir komust á blað nema Axel Kára sem var nú reyndar eitthvað lítið að nota skothöndina gegn sínum gömlu félögum í Fjósinu. Byrjunarlið Tindastóls gerði 65 stig en bekkurinn 47. Lið Tindastóls gerði 47 stig úr hraðaupphlaupum en lið heimamanna tapaði boltanum 35 sinnum í leiknum. Pétur Rúnar átti frábæran leik en hann gerði 18 stig, tók átta fráköst og átti ellefu stoðsendingar. Badmus var stigahæstur með 22 stig, Javon Bess var með 18 stig líkt og Pétur og Arnar skilaði 17 stigum.

Tölfræði leiks á vef KKÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir