Sterkur sigur Stólanna í Vesturbænum

Það er alltaf gaman að vinna í DHL-höllinni. Hér eigast Helgi Rafn og Kristófer Acox við í leik vorið 2018. MYND: HJALTI ÁRNA
Það er alltaf gaman að vinna í DHL-höllinni. Hér eigast Helgi Rafn og Kristófer Acox við í leik vorið 2018. MYND: HJALTI ÁRNA

Stórleikur 6. umferðar Dominos-deildarinnar fór fram í gærkvöldi þegar Íslandsmeistarar KR tóku á móti liði Tindastóls í DHL-höllinni. Reiknað var með miklum slag og það var sannarlega það sem áhorfendur fengu. Lið Tindastóls spilaði vel, hafði frumkvæðið lengstum, og missti aldrei dampinn. Það fór svo eftir yfirvegaðar lokamínútur gestanna að strákarnir tóku stigin tvö og fögnuðu vel ásamt fjölmörgum stuðningsmönnum sem lagt höfðu leið sína í Vesturbæinn. Lokatölur 85-92.

Það voru Kristófer Acox og Jón Arnór sem gerðu fyrstu körfur leiksins fyrir KR en þeir gerðu ekki mikið meiri skaða það sem eftir lifði leiks. Jaka Brodnik og ekki síst Sinisa Bilic komu til leiks með bullandi sjálfstraust og um fyrsta leikhluta og þrist frá Simmons leiddu Stólarnir 8-12. Það kom fljótt í ljós að Vesturbæingar voru ekkert sérlega heitir utan 3ja stiga línunnar en þó var það helst Brilli sem eitthvað hitti þaðan. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 18-23 og Viðar jók muninn með laglegri körfu í upphafi annars leikhluta. Þá kom í raun eini slæmi kafli Tindastóls í leiknum því liðið gerði aðeins tvö stig næstu fimm mínútur og lið KR skreið yfir, 29-27. Þegar Simmons kom aftur inn eftir nokkra hvíld þá fóru hlutirnir aftur að ganga í sókn Tindastóls og Stólarnir voru yfir, 32-36, þegar tæp mínúta var til hálfleiks. Stólarnir voru hins vegar ekki skynsamir þessar síðustu sekúndur og Michael Craion og Jakob Sigurðsson sáu til þess að allt var jafnt í hálfleik. Staðan 36-36.

Perkovic, Brodnik og Bilic sáu til þess að lið Tindastóls náði sex stiga forystu í byrjun síðari hálfleiks og þrír þristar á um mínútu frá Pétri komu muninum í tíu stig og var munurinn þetta 7-10 stig næstu mínúturnar. Þegar tæpar 20 sekúndur voru eftir af þriðja leikhluta var dæmd óíþróttamannsleg villa á Helga Viggós eftir að hann var talinn hafa brotið á Jóni Arnóri. Helgi steig fram til að reyna að verja 3ja stiga skot Jóns Arnórs en Jón lenti síðan ofan á fætinum á Helga og meiddist þannig að hann kom ekki meira við sögu í leiknum. Jakob Sig steig þá fram og setti niður öll þrjú vítin og KR fékk boltann og Jakob setti niður þrist – sex stig á jafn mörgum sekúndum og staðan skyndilega orðin 63-66 þegar lokafjórðungurinn einn var eftir.

Stólarnir sterkir á endasprettinum 

Strax í upphafi fjórða leikhluta fékk Acox sína fimmtu villu og þrátt fyrir að kappinn hafi ekki átt góðan leik þá varð þetta ekki til að efla lið heimamanna. KR komst þó yfir, 67-66, stuttu síðar en Perkovic og Brodnik komu Stólunum aftur í gírinn með góðum körfum. Næstu mínútur skoruðu liðin til skiptis en lið Tindastóls þó alltaf skrefi á undan. Þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af leiknum setti Brilli niður fjórða þristinn sinn og minnkaði muninn í eitt stig, 76-77, Bilic gerði næstu fjögur stig Stólanna en þegar tæp mínúta var eftir náðu Stólarnir laglegri sókn sem endaði með að Perkovic, sem hafði þá klikkað á fjórum 3ja stiga skotum, negldi einn niður og Stólarnir komnir með sex stiga forskot, 78-84. Helgi Magnússon minnkaði í fjógur stig en þristur úr hægra horninu frá Brodnik gekk endanlega frá leiknum og eftir smá vítasyrpu þá lauk leiknum með sterkum sigri Tindastóls.

Sigurinn fleitti liði Tindastóls í annað sæti deildarinnar en fjögur lið eru í 2.-5. sæti með átta stig en Keflvíkingar eru taplausir á toppnum með 12 stig. Bestir í liði Tindastóls voru Jaka Brodnik, sem gerði 20 stig og tók ellefu fráköst, og Sinisa Bilic, sem gerði 24 stig og tók fimm fráköst. Simmons gerði 17 stig en var með sex tapaða bolta en engu að síður náðu Stólarnir sínum bestu köflum þegar Simmons var á gólfinu. Pétur var með níu stig og ellefu fráköst, Helgi var inn á rúmar 15 mínútur og átti frábæran leik, gerði tíu stig, tók sex fráköst og lenti í einu jarlslegu orðaskaki við Inga Þór þjálfara KR að leik loknum. Perkovic var ekki góður framan af leik en dúkkaði upp með mikilvægar körfur þegar á leið og stóð vörnina með ágætum. 

Í heildina lék lið Tindastóls vel í leiknum en í örfá skipti skorti dálítið á skynsemina sem getur skipt sköpum þegar andstæðingurinn er KR. Að þessu sinni voru það óvenju fáir leikmenn heimamanna sem náðu sér á strik. Craion var Stólunum að venju erfiður en hann gerði 21 stig og tók 16 fráköst eða helming allra frákasta KR í leiknum. Jakob var með 19 stig, Brynjar Þór 13 og Matti Sig 12. 

Næsti andstæðingur Tindastóls verður lið Hauka með Israel Martin í brúnni. Sá leikur fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld kl. 19:15. Nú þurfa Stólarnir að nýta meðbyrinn og mæta einbeittir til leiks. Allir í Síkið og áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir