Stólarnir á flötu að Hlíðarenda

Bess var skástur í liði Tindastóls í gær. MYND: HJALTI ÁRNA
Bess var skástur í liði Tindastóls í gær. MYND: HJALTI ÁRNA

Rússíbanareið Tindastóls í Subway-deildinni heldur áfram. Í gær rúlluðu okkar menn suður að Hlíðarenda þar sem Valsmenn biðu þeirra. Eftir ágæta byrjun gestanna í leiknum náðu Valsmenn frumkvæðinu í öðrum leikhluta og gerðu svo bara lítið úr Stólunum í síðari hálfleik. Lokatölur 96-71 og lítil stemning fyrir svona tölum hjá stuðningsmönnum Stólanna – og sjálfsagt ekki hjá leikmönnum heldur. Það er því vonandi að að strákarnir rétti úr kútnum þegar Vesturbæingarnir heimsækja Síkið nk. fimmtudag.

Valsmenn voru skrefinu á undan í fyrsta leikhluta en Stólarnir vel inni í leiknum. Taiwo jafnaði leikinn, 16-16, þegar tæpar sex mínútur voru liðnar og Siggi kom okkar mönnum yfir með sjaldséðum þristi. Valsmenn komust þó aftur yfir en Bess minnkaði muninn í eitt stig, 23-22, með þristi undir lok fyrsta leikhluta. Liði Tindastóls gekk illa að eiga við góðan varnarleik Valsmanna sem voru komnir níu stigum yfir, 35-26, eftir fjórar mínútur í öðrum leikhluta. Hlutirnir geta gerst hratt í körfunni og tveir þristar frá Axel og Bess minnkuðu bilið í þrjú stig á mínútu. Valsmenn tóku þá leikhlé og náðu undirtökunum á ný og leiddu í hléi, 47-39, en Arnar lagaði stöðuna með þristi í blálok fyrri hálfleiks.

Stólarnir héldu í horfinu fyrstu tvær-þrjár mínútur þriðja leikhluta en síðan tóku heimamenn leikinn yfir með þá Bertone og Kristófer Acox í banastuði en þeir tvær voru með álíka marga framlagspunkta í leiknum og allt lið Tindastóls! Það var fátt um fína drætti í leik Stólanna og eingöngu Bess sem sýndi smá líf en hann var eini leikmaður liðsins sem gerði meira en níu stig í leiknum. Staðan var 70-54 að loknum þriðja leikhluta og í fjórða leikhluta kom í ljós að lengi getur vont versnað.

Sem fyrr segir var Javon Bess atkvæðamestur í liði Tindastóls með 22 stig og fimm fráköst. Fjórir leikmenn skiluðu níu stigum í hús; Taiwo, Arnar, Siggi og Zoran Vrkic sem spilaði sinn fyrsta leik fyrir lið Tindastóls í gærkvöldi. Hann tók að auki þrjú fráköst og átti fjórar stoðsendingar. Siggi var með átta fráköst og Pétur sjö stoðsendingar.

Skotnýting Tindastóls var 41% í leiknum en Valsmanna 49% og Stólarnir fengu aðeins sjö vítaskot á móti 19 vítum Valsmanna sem segir sína sögu. Liðin fráköstuðu svipað en Stólarnir töpuðu 19 boltum á meðan Valsmenn töpuðu níu og munar um minna.

„Mér fannst við lélegir á báðum endum vallarins. Við misstum Val langt frá okkur í seinni hálfleik. Varnarleikurinn var slakur og sóknarleikurinn ekki upp á marga fiska. Það var hvorki orka né vilji til að spila og verðum við að líta í eigin barm og gera betur. Mér fannst við aldrei ná neinu augnabliki í leiknum og virkaði allt sem við gerðum einfaldlega flatt,“ sagði svekktur Baldur Þór, þjálfari Tindastóls, í samtali við Vísi.is að leik loknum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir