Stór sigur á Héraðsbúum í Síkinu

Tomsick á fljúgandi ferð í Síkinu í gær. MYND: HJALTI ÁRNA
Tomsick á fljúgandi ferð í Síkinu í gær. MYND: HJALTI ÁRNA

Þó staða Tindastóls í Dominos-deildinni sé kannski ekkert til að hrópa húrra yfir þá verður að viðurkennast að deildarkeppnin hefur sjaldan verið skemmtilegri. Í gærkvöldi tók lið Tindastóls á móti spræku liði Hattar frá Egilsstöðum og áttu margir von á erfiðum leik. Sem reyndist raunin en Stólarnir voru engu að síður betra liðið og nældu í stigin tvö sem ættu í það minnsta að fara langt með að tryggja sæti í efstu deild. Gestirnir leiddu með einu stigi í hálfleik en Stólarnir höfðu yfirhöndina allan síðari hálfleikinn og nældu í stigin mikilvægu. Lokatölur 90-82.

Stólarnir fóru ágætlega af stað í gærkvöldi og komust í 17-11 um miðjan fyrsta leikhluta. Hattarar svöruðu með 11-0 kafla en Udras og Tomsick minnkuðu í eitt stig í lokin. Mallory og Hreinsi Bigga juku muninn fyrir gestina í byrjun annars leikhluta en Höttur náði mest tíu stiga forystu, 24-34, áður en Stólarnir ákváðu að láta ekki valta yfir sig í Síkinu. Hreinsi átti fínan leik í gær og hann kom Hetti í 40-45 skömmu fyrir hlé en Udras og Flenard löguðu stöðuna fyrir lið Tindastóls áður en flautað var til tedrykkju. Staðan 44-45 í hálfleik.

Udras setti tóninn fyrir Stólana í byrjun síðari hálfleiks með vænum þristi. Mallory jafnaði, 47-47, og hann jafnaði aftur 51-51 en Stólarnir komust strax yfir með þristum frá Udras og Pétri og héldu forystunni allt til loka þrátt fyrir nokkur áhlaup gestanna. Leikurinn var engu að síður jafn og spennandi og á fyrstu mínútum fjórða leikhluta var munurinn á köflum aðeins eitt stig. Um miðjan leikhlutann náðu Stólarnir góðum kafla og juku muninn í sjö-átta stig og þann mun náðu gestirnir aldrei að narta í að ráði.

Tomsick átti fínan leik fyrir Tindastól í gær, gerði 25 stig og var 8/17 í skotum en það gladdi sannarlega augað að sjá hann eiga 13 stoðsendingar. Þá var Brodnik öflugur með 16 stig og 14 fráköst, Udras var með 18 stig og átta fráköst og Flenard Whitfield skilaði 13 stigum og 12 fráköstum. Mallory var með 23 stig fyrir Hött og Búbbinn skilaði 14 stigum á töfluna.

Næstkomandi fimmtudagskvöld verður slegist í Síkinu en þá mæta spútnikkarnir í Þór Akureyri í Síkið, nýbúnir að negla KR-inga og í góðum gír. Nú þurfa Stólarnir að stíga upp.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir