Sylvía skrifar undir hjá Stólastúlkum

Sylvía eftir að hafa skrifað undir lánssamning við knattspyrnudeild Tindastóls. MYND: TINDASTÓLL
Sylvía eftir að hafa skrifað undir lánssamning við knattspyrnudeild Tindastóls. MYND: TINDASTÓLL

Í gær bættist Sylvía Birgisdóttir í hóp Stólastúlkna en leikmannaglugginn lokar um næstu helgi og enn er unnið að því að styrkja hópinn fyrir átökin í Pepsi Max deildinni. Sylvía kemur til Tindastóls frá Stjörnunni á láni.

Að sögn Óskars Smára Haraldssonar í þjálfaradúett Tindastóls er Sylvía kraftmikill leikmaður, spilar vanalega sem kantmaður eða bakvörður, hvort heldur sem er hægra eða vinstra megin. Hún spilaði einn leik í Pepsi Max deildinni i fyrra með Stjörnunni. Hún var þá líka varafyrirliði 2. fl. kvk. sem varð Íslandsmeistari.

„Sylvía kemur með aukna breidd og mikil gæði inn í okkar hóp. Hún er hröð, áræðin og sterk. Við erum mjög ánægðir að fá Sylvíu til okkar. Hún er metnaðarfullur leikmaður sem styrkir okkur innan sem utan vallar,“ segir Óskar Smári.

Þá bætist Hallgerður Kristjánsdóttir í hópinn nú í vikunni en næsti leikur Tindastóls er á laugardag kl. 13:00 en þá mæta Blikabanarnir úr Eyjum á Krókinn – ef Covid lofar. Óskar reiknar með því að leikurinn fari fram en heilsan verði sett í forgang þannig að ef fleiri kóftengt vandamál koma upp verða þau mál skoðuð betur. „Við erum þakklátir Fylki fyrir að hafa staðið með okkur að spila ekki leikinn í dag,“ segir hann en leikurinn gegn Fylki átti að spilast í Árbænum í kvöld.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir