Tap Stólastúlkna gegn liði Ármanns

Lið Tindastóls að loknum fyrsta leik ársins. Þær hafa örugglega ekki verið svona brosmildar að leik loknum í gær. MYND AF FB-SÍÐU TINDASTÓLS
Lið Tindastóls að loknum fyrsta leik ársins. Þær hafa örugglega ekki verið svona brosmildar að leik loknum í gær. MYND AF FB-SÍÐU TINDASTÓLS

Leikið var í 1. deild kvenna í körfubolta í gær og fór lið Tindastóls í Kennaraháskólann þar sem þær mættu liði Ármanns. Heimastúlkur náðu yfirhöndinni snemma í leiknum og unnu öruggan sigur þrátt fyrir ágætan endasprett Stólastúlkna. Lokatölur voru 59-52.

Fyrir leikinn hafði lið Tindastóls unnið tvo leiki í 1. deildinni en heimastúlkur voru með einn sigur í sex leikjum. Marín Lind kom Stólastúlkum yfir með þristi, 4-7, en fór stuttu síðar af velli og kom lítið við sögu það sem eftir lifði leiks og var það skarð fyrir skildi. Í kjölfarið komst lið Ármanns yfir og sjö stigum munaði að loknum fyrsta leikhluta, staðan 20-13. Marín Lind minnkaði muninn á ný, 23-20, með þristi snemma í öðrum leikhluta en fór stuttu síðar af velli og tók ekki frekari þátt í leiknum. Heimastúlkur gengu á lagið og voru komnar með 14 stiga forskot, 38-24, skömmu fyrir hálfleik en Eva Wium, sem var lang atkvæðamest í liði Tindastóls, lagaði stöðuna fyrir hlé. Staðan 38-27.

Ekki gekk Stólastúlkum vel að koma sér inn í leikinn í þriðja leikhluta því stelpurnar gerðu þá aðeins sex stig. Sem betur var vörnin ágæt en heimastúlkur gerðu engu að síður 12 stig og voru því 17 stigum yfir að honum loknum og staðan 50-33. Linda Þórdís minnkaði muninn í ellefu stig þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum en tveir þristar frá heimastúlkum jörðuðu þessa endurkomutilburði Stólastúlkna. Tveir þristar frá Kerenu Lind á lokakaflanum gerðu úrslitin aðeins álitlegri fyrir gestina, lið Tindastóls gerði níu síðustu stig leiksins, en sigur Ármanns engu að síður öruggur þó lið Tindastóls hafi fengið tækifæri til að laga stöðuna enn frekar síðustu 90 sekúndurnar.

Eva Wium var stigahæst Stólastúlkna með 23 stig og hún tók einnig átta fráköst. Inga Sólveig hirti 13 fráköst í leiknum. Karen Lind var með átta stig og Marín Lind og Linda Þórdís gerðu bárðar sex stig en Linda hirti sex fráköst.

Næstkomandi laugardag kemur b-lið Fjölnis í heimsókn í Síkið en Grafarvogsstúlkur hafa unnið þrjá leiki af sjö í 1. deildinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir