„Þetta var besta stundin á atvinnumannsferli mínum“

Keyshawn með boltann í oddaleiknum gegn Valsmönnum í vor. MYNDÞ DAVÍÐ MÁR
Keyshawn með boltann í oddaleiknum gegn Valsmönnum í vor. MYNDÞ DAVÍÐ MÁR

Það er vonandi enginn búinn að gleyma ævintýrinu í vor þegar karlalið Tindastóls varð Íslandsmeistari í körfubolta í fyrsta sinn í sögunni. Í raun svo mögnuð og ótrúleg vegferð að dramað var stærra og snúnara en í nokkurri Hollywood-mynd. James Bond bjargar vanalega heiminum þegar tvær sekúndur eru til stefnu. Þetta var pínu rosalega þannig en bara betra. Þetta var liðssigur, sigur leikmanna, þjálfara og stuðningsfólks sem aldrei tapaði trúnni á sigur.

Að öðrum leikmönnum ólöstuðum stóð samt Antonio Keyshawn Woods upp úr. Hann átti einfaldlega stjörnuleik, gerði 33 af 82 stigum liðsins og var svo svalur á lokamínútunum að það var með hreinum ólíkindum. Kappinn fagnaði í leikslok, var valinn maður leiksins og fór svo heim til Bandaríkjanna strax morguninn eftir. Feykir náði í skottið á honum í Facebook-skilaboðum nú rétt fyrir jólin og hann féllst á að svara nokkrum spurningum.

Hvernig leið þér eftir að lið Tindastóls tryggði sér fyrsta Íslandsmeistaratitilinn, áttaðir þú þig á því hvað þetta þýddi fyrir leikmenn og stuðningsmenn liðsins? „Já, það var klárt mál frá upphafi tímabilsins hversu mikilvægt það var fyrir Tindastól að vinna sinn fyrsta titil. Sérstaklega þar sem liðið var svo nálægt því árið áður. Þetta var besta stundin á atvinnumannsferli mínum hingað til!“

Úrslitaleikurinn hefur verið endursýndur um 100 sinnum í sjónvarpi síðan í vor. Margir hrista enn hausinn þegar þeir horfa á þig taka vítin undir lok leiksins. Þetta voru taugar úr stáli. Hvernig tókst þér að vera svona rólegur og hvað fór í gegnum huga þinn þegar þú tókst vítin? „Mér tókst að halda rónni því ég treysti vinnunni sem ég var búinn að leggja á mig. Ég vinn svo mikið í mínum leik og andlegu hliðinni að ég hafði enga ástæðu til að vera stressaður. Það eina sem ég sagði við sjálfan mig var: „It is Well.“ Orðtak sem við fjölskyldan mín notum gjarnan.“

Trúðirðu að lið Tindastóls gæti orðið meistari, gerðist það á einhverjum sérstökum tímapunkti á tímabilinu?„Að vinna meistaratitilinn var alltaf markmiðið. Tímabilið var ansi sveiflukennt, þá sérstaklega í byrjun. Ég held að þegar við komum inn í úrslitakeppnina þá vorum við farnir að rúlla og orðnir nokkuð ákveðnir og öruggir með okkur.“

Voru strákarnir í liðinu í lagi? „Ég elska strákana. Þeir voru frábærir liðsfélagar innan vallar sem utan.“

Hvað getur þú sagt um úrslitakeppnina með liði Tindastóls og stuðningsmönnum félagsins? „Úrslitakeppnin var frábær upplifun. Stuðningsmenn Tindastóls eru einhverjir bestu stuðningsmenn sem ég hef spilað fyrir sem atvinnumaður. Tímabilið var í heildina frábær upplifun.“

Segja má að Tindastólsmenn og samfélagið hafi verið í skýjunum eftir sigurinn og langt fram á sumar. Var ekki skrítið að geta ekki verið með í gleðinni, bestu veislu í sögu Skagafjarðar daginn eftir leik, sérstaklega þar sem þú varst maður leiksins og margir vildu þakka þér fyrir? „Ég hata að hafa misst af sigurhátíðinni. Ég hefði sannarlega viljað taka þátt í henni og fagna titlinum með liðsfélögum mínum og öllum stuðningsmönnunum. En ég hafði lofað dóttur minni að koma heim strax eftir leik og ég vildi standa við það loforð.“

Hvernig var tíminn þinn á Sauðárkróki? „Það var góður tími. Andrúmsloftið í kringum liðið var öðruvísi og eitthvað sem ég þurfti á að halda.“

Hvernig fannst þér íslenski körfuboltinn? „Mér líkaði vel við íslenska körfuboltann. Hann er mjög hraður og ég naut þess að spila í deildinni.“

Hvar ertu að spila núna? „Ég var að spila í Tyrklandi. Eins og er er ég að leita mér að nýju liði.“

Hvað gerir þú um jólin og hvað er í matinn? „Ég verð heima um jólin. Ég mun bara eyða tíma með fjölskyldunni, horfa á kvikmyndir og slaka á. Kvöldmaturinn verður líklega: Mac'n'Cheese, Candied Yams, kjúklingur, lambakótelettur, Collard Greens o.s.frv... Ég er viss um að þetta verður mikil veisla þar sem ég verð heima,“ segir Keyshawn hlæjandi og bætir við í lokin: „Tindastóll mun alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu. Ég þurfti þessa reynslu fyrir sjálfan mig meira en fólk grunar. Liðsfélögum mínum, þjálfurum, aðstoðarfólki og öllum stuðningsmönnum Tindastóls sendi ég góðar kveðjur – takk fyrir frábæra upplifun!“

Feykir og örugglega allir stuðningsmenn Tindastóls óska Keyshawn gleðilegra jóla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir