Þorsteinn kjörinn reiðkennari ársins

Þorsteinn tekur við verðlaunum sem reiðkennari ársins. MYND AF SÍÐU HÁSKÓLANS Á HÓLUM
Þorsteinn tekur við verðlaunum sem reiðkennari ársins. MYND AF SÍÐU HÁSKÓLANS Á HÓLUM

Þorsteinn Björnsson, reiðkennari við Háskólann á Hólum, var fyrir jól kjörinn reiðkennari ársins. Það er menntanefnd Landsambands hestamanna sem auglýsti eftir tilnefningum til reiðkennara ársins og svo fór kosning fram í netkosningu. Valið að þessu sinni stóð milli Heklu Katharínu Kristinsdóttur, Finnboga Bjarnasonar og Þorsteins.

Í frétt á heimasíðu Háskólans á Hólum segir að þátttaka hafi verið góð í kjörinu og að allir hafi kennararnir hlotið mörg atkvæði en Þorsteinn stóð upp úr.

„Þorsteinn hefur starfað sem reiðkennari á Hólum síðan 2008, það eru 15 ár. Hann hefur þess vegna haft mótandi áhrif á reiðkennara framtíðarinnar. Hann kennir á öllum stigum og kennir allt innan hestamennsku, afskaplega sveigjanlegur. Hann getur stokkið til og kennt hverjum sem er og komið með uppbyggileg ráð, oft sett fram með einföldum hætti. Hann hefur einnig eiginleikann að láta nemendur ekki velta sér of mikið upp úr mistökum, sem er afskaplega mikilvægt til að hafa skapandi umhverfi. Þar sem léttleiki og leikur fá að njóta sín, gerast oft skemmtilegir hlutir,“ segir m.a. á heimasíðu Háskólans á Hólum.

Nánar má lesa um reiðkennara ársins á síðunni en Þorsteinn er einnig reiðkennari ársins fyrir Íslands hönd í kosningu Feif á “Feif trainer/instructor of the year” á vefsíðu FEIF (International Federation of Icelandic Horse Associations) og ætti kosning einmitt að vera í gangi núna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir