Þriggja stiga stuðpartý Stólanna í Hveragerði

Sigurlausir Hamarsmenn fengu meistara Tindastóls í heimsókn í Hveragerði í síðustu umferð fyrri umferðar Subway-deildarinnar í kvöld. Það er allt í einum haug á toppi deildarinnar og að mati Pavels þjálfara var mikilvægt að ná í sigur í Kjörísbæinn svo lið hans þyrfti ekki að stunda eltingarleik eftir áramót. Bæði lið komu nokkuð löskuð til leiks en um leið og Stólarnir náðu undirtökunum var ekki að sökum að spyrja. Lokatölur 81-106.

Heimamenn þeystu úr startholunum í byrjun leiks og þegar Drungilas kom fyrstu stigum Stólanna á töfluna var staðan 12-3 fyrir Hamar. Þeir leiddu nánast út fyrsta leikhlutann en fimm punktar frá Tóta jöfnuðu leikinn 18-18. Tóti og Raggi komu Stólunum fimm stigum yfir í byrjun annars leikhluta en Hamarsmenn náðu yfirhöndinni á ný, 26-23, en liðin skiptust á um að hafa forystuna næstu mínútur. Davis Geks hefur verið sjóðandi utan 3ja stiga línunnar eftir að hann kom úr meiðslum og hann var á eldi í kvöld – setti átta stykki – og tveir þristar frá honum undir lok fyrri hálfleiks sáu til þess að Tindastóll leiddi í hálfleik, 36-43.

Jafnræði var með liðunum framan af þriðja leikhluta en staðan var 54-56 þegar hann var rúmlega hálfnaður. Þá má eiginlega fullyrða að gestirnir hafi tekið völdin, náðu 11-2 kafla og staðan 56-67. Lið Hamars náði að minnka muninn í sjö stig en þristar frá Hannesi, Pétri og Drungilas bjuggu til 12 stiga forystu, 66-78, fyrir lokaátökin. Fjórar fyrstu körfur Stólanna voru þristar, tveir frá Veigari og sitt hvor frá Pétri og Geks, og þá var munurinn skyndilega orðinn 23 stig og bara spurning hver setti glassúrinn á snúðinn – það kom í hlut Arnars nokkurs Björnssonar sem loks fékk að sprikla pínu eftir beinbrot í byrjun vetrar.

Semsagt; góður sigur í fjörugum leik sem skreið með sigrinum upp fyrir miðja deild. Þegar einum leik er ólokið í lokaumferðinni fyrir jól eru Stólarnir með 14 stig líkt og önnur fimm lið í deildinni og aðeins spurning hvort það verða Keflvíkingar eða Þórsarar sem jafna Val að stigum á toppi deildarinnar annað kvöld.

Alls settu Stólarnir niður 24 þrista í 56 skotum í kvöld, tóku aðeins 26 skot innan teigs, og átta leikmenn skiptu þristunum á milli sín. Geks var með átta stykki í 14 skotum. Tóti var með 28 stig, átta fráköst og níu stoðsendingar en spilaði bara 31 mínútu. Geks setti bara þrista og gerði því 24 stig, Drungilas var með 18 stig og níu fráköst, Veigar 11 stig, Raggi 10., Hannes og Pétur sex hvor og Arnar þrjú stig.

Eflaust hefur einhverjum stuðningsmanninum brugið að sjá aðeins níu kappa á skýrslu og að í lið Stólanna vantaði Callum Lawson og Calloway var enn án leikheimildar. Það kom ekki að sök í kvöld og þeir sem mættu sýndu skínandi takta. Vonandi styttist nú í að Stólarnir geti farið að tefla fram sínu sterkasta liði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir