Þrír lykilmenn skrifa undir hjá Tindastól

Penninn á lofti á skrifstofu Tindastóls. Sverrir Hrafn, Konráð Freyr og Fannar Örn. Aðsend mynd.
Penninn á lofti á skrifstofu Tindastóls. Sverrir Hrafn, Konráð Freyr og Fannar Örn. Aðsend mynd.

Stjórn knattspyrnudeildar Tindastóls hefur samið við þrjá lykilmenn fyrir átökin í 3. deild Íslandsmótsins í sumar. Þetta eru þeir Konráð Freyr Sigurðsson, Fannar Örn Kolbeinsson og Sverrir Hrafn Friðriksson. 

Í tilkynningu frá deildinni kemur fram Konráð Freyr sé 25 ára miðjumaður uppalinn á Skaganum en hefur leikið með liði Tindastóls síðan hann flutti á Krókinn 16 ára gamall. Hann hefur fengið það hlutverk að vera fyrirliði liðsins í sumar. Konráð hefur spilað 141 meistaraflokksleik og hefur skorað í þeim 19 mörk alls.

Fannar Örn er 28 ára gamall varnarmaður, uppalinn í Tindastól en skipti yfir til Vals ungur að aldrum eða árið 2010. Hann kom aftur til Tindastóls sumarið eftir og lék með þeim til 2016, þá fór hann út í atvinnumennsku til Þýskalands. Hann spilaði þar í eitt ár. Síðasta tímabil skipti hann yfir til Magna Grenivík en kom síðan í glugganum aftur á Krókinn. Fannar hefur leikið alls 190 leiki í meistaraflokki og skorað 16 mörk í þeim leikjum.

Sverrir Hrafn er 24 ára varnarmaður, uppalinn hjá Einherja á Vopnafirði. Sverrir kom fyrst til Tindastóls sumarið 2018 og spilaði með liðinu tvö sumur, áður en hann skipti aftur yfir til uppeldisklúbbsins Einherja. Sverrir hefur leikið 119 leiki í meistaraflokk og skorað 8 mörk í þeim leikjum.

„Það má segja að allir þessir leikmenn séu með mikla reynslu og mun það svo sannarlega nýtast Tindastól í sumar. Drengirnir skrifuðu allir undir eins árs samning,“ segir í tilkynningunni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir