Þrymur í þriðju deild! - Smá samantekt um Knattspyrnufélagið ÞRYM

Þann 11. janúar sl. voru liðin 31 ár frá stofnun Knattspyrnufélagsins Þryms á Sauðárkróki en fyrir rúmu ári gerði Feykir þeim tímamótum skil að 30 ár væru liðin frá þeim viðburði. Fjölmargir tóku þátt í starfi félagsins fyrstu árin og minnast skemmtilegra tíma meðan allt var í gangi en á tíma voru reknar þrjár deildir innan vébanda þess. Upphaflegt markmið Þryms var að virkja óvirka knattspyrnumenn til iðkunar á íþróttinni, eins og kemur fram í meðfylgjandi texta en fljótlega var farið í stofnun körfuknattleiksdeildar og síðar glímudeildar, sem má segja að hafi verið eina barnastarf félagsins. „Þrymur í þriðju deild“ var kjörorð félagsins en keppt var alla tíð í 4. deildinni í fótboltanum.

Þegar undirritaður var að velta fyrir sér hvað hægt væri að finna um félagið vegna tímamótanna mundi hann eftir úrklippubók sem átti að vera til einhvers staðar í gömlum kassa á heimilinu og í leit að henni kemur í ljós gömul heimildaritgerð sem skrifuð var í íslensku í FNV sem dregur upp mynd af fyrstu þremur árum í lífi nýs íþróttafélags. Rifjaðist það upp að undirrituðum þótti tilvalið að skrifa um Þrym þar sem hann þekkti vel til sem einn af stofnendum félagsins og síðar formaður þess og sparaði því heilmikla vinnu við heimildaöflunina. Í umsögn kennara segir að samantektin hafi verið fróðleg þar sem notkun heimilda falli vel að verkinu, þannig að hún verður notuð hér sem aðalupprifjun um félagið.

Knattspyrnufélagið Þrymur

Inngangur
Íþróttafélög gegna veigamiklu hlutverki í félags- og íþróttamálum hvers sveitarfélags sem þau starfa í. Þau njóta mismikils áhuga og athygli manna og virðist sem ung félög eigi erfitt uppdráttar gagnvart eldri starfandi félögum á sama svæði. Það er ætlun mín i þessari ritgerð að segja frá stofnun Knattspyrnufélagsins Þryms og starfsemi knattspyrnudeildarinnar fyrstu þrjú árin i sögu þess.

Stofnun félagsins
Undirbúningur að stofnun knattspyrnufélags, sem hefði það á stefnuskránni að leika knattspyrnu í Íslandsmóti, hófst haustið 1989. Það voru ungir menn á, Sauðárkróki sem stóðu að honum. Þeir æfðu knattspyrnu á eigin vegum því þeir áttu ekki inni i neinu félagi sem vildi sinna þeim að gagni.

Stofnfundur var haldinn fimmtudaginn 11. janúar 1990 og voru um 30 manns mættir á fundinn. Mikill áhugi var í mönnum og voru þeir ánægðir með framtakið, eins og segir i blaðagrein stuttu seinna: „Mikill áhugi hefur verið á því að stofna svona lið undanfarin ár en mönnum ekki tekist það fyrr en nú.“ (Nýtt félag á Króknum. Dagur, 13. jan. 1990.)

Nokkur nöfn voru tilnefnd á, nýja félagið en nafnið Þrymur fékk flest atkvæði og var ákveðið að félagið héti upp frá því Knattspyrnufélagið Þrymur. Uppástunguna að nafninu átti Friðrik Margeirsson. Kosið var í stjórn og hlutu eftirfarandi kosningu:

Svanur Jóhannesson, formaður
Ásmundur Baldvinsson, varaformaður
Kristján Baldvinsson, gjaldkeri
Páll Friðriksson, ritari
Björn Ingimarsson og Haraldur Leifsson, meðstjórnendur.

(Fundarg.bók.)

Fyrsta starfsárið
Fyrsta verk stjórnarinnar var að afla peninga i félagið. Farið var í hinar ýmsu fjáraflanir og tókust samningar við Heildverslunina Röst um auglýsingu á keppnisbúninga og Fiskiðja Sauðárkróks auglýsti á utanyfirgalla. Vel tókst til með peningamálin því samkvæmt rekstrarreikningi í árslok 1990 var hagnaður félagsins kr. 4.663.

Í lögum félagsins stendur: „Tilgangur félagsins er að efla á allan hátt íþróttaiðkun, heilbrigt líf og almennan áhuga á íþróttum.“, en í fyrstu var gefin út svohljóðandi yfirlýsing: „Markmið félagsins var að virkja óvirka knattspyrnumenn til iðkunar á íþróttinni“. (Ársskýrsla UMSS 1990.)

Þetta reyndist sannmæli því 25 manns voru skráðir á leikmannaskýrslur eftir sumarið, flestir höfðu lagt skóna á hilluna en tekið fram á ný. Fljótlega eftir stofnfundinn var Alfreð Gudmundsson ráðinn þjálfari liðsins. Hann stýrði félaginu út sumarið við ágætan orðstír.

Fyrsti kappleikurinn var háður þriðjudaginn 5. júní 1990 á Sauðárkróksvelli gegn Kormáki frá Hvammstanga. Þetta var fjörugur leikur sem endaði með sigri Kormáks. Annars urðu úrslit leikja hjá Þrymi eftir sumarið eftirfarandi:

Þrymur – Kormákur 1-3
Þrymur – Hvöt 2-3
Neisti – Þrymur 2-0
Geislinn – Þrymur 3-0

Hvöt – Þrymur 3-1
Þrymur -Neisti 0-0
Kormákur – Þrymur 3-1
Þrymur – Geislinn 3-2

 

Lokastaðan

Leikir

Sigrar

Jafntefli

Töp

Markatala

Stig

Hvöt

8

6

1

1

18-7

19

Kormákur

8

5

0

3

21-8

15

Neisti

8

4

2

2

13-5

14

Geislinn

8

1

2

5

5-26

5

Þrymur

8

1

1

6

8-19

4

(Ísl. knattsp. 1990, bls. 80.)

 

Þrátt fyrir að Þrymur tapaði mörgum leikjum fengu þeir samt lof fyrir góða frammistöðu. „ ... og nýja liðið Þrymur á Sauðárkróki hafnaði í botnsætinu en veitti þó öllum talsverða keppni.“ (Ísl. knattsp. 1990, bls.80.)

Þrymur tók þátt í héraðsmóti UMSS í knattspyrnu þetta haust og lenti í 3. sæti af fjórum, næst á eftir Tindastóli og Neista en fyrir ofan Fljótamenn. (Ársk. UMSS. knattspyrnupistill). Ekki fann ég heimildir, fyrir einstök úrslit.

Um haustið fengu nokkrir ungir skagfirskir námsmenn í Reykjavík að nota nafn félagsins og keppa í körfuknattleik undir þess fána. Tóku þeir þátt í bikarkeppni KKÍ og náðu mjög góðum árangri og komust t.a.m. í 16 liða úrslit í keppninni.

Í desember hélt UMSS héraðsmót í körfuknattleik og kepptu þar fimm lið; Fram, Glóðafeykir, H.Í.D.S. og Neisti. Úrslitaleikurinn var á milli Neista, og Þryms og sigraði Neisti með 28 stigum gegn 23 og urðu þar með héraðsmeistarar.
(Árskýrsla UMSS 1990, Körfuknattleikspistill)

Annað starfsár 1991
Aðalfundur var haldinn þann 17. janúar 1991 í Framsóknarhúsinu á Sauðárkróki. Ný stjórn tók við völdum og hlutu eftirfarandi menn kosningu:
Formaður: Páll Friðriksson
Varaform: Sigrún Angantýsdóttir
Gjaldkeri: Kristján Baldvinsson
Ritari: Oddbjörn Magnússon
Meðstjórnandi: Árni Friðriksson

Erfiðlega gekk að fá þjálfara til liðsins, en seint og um síðir samþykkti Þórarinn Thorlacius að taka verkefnið að sér og hófust æfingar 23. febrúar. Það má segja að árið 1991 hafi verið mun erfiðara í sögu Þryms en 1990. Má rekja það til árangurs fyrra árs. Menn spurðu sig hvort rétt hefði verið að stofna nýtt lið sem sýndi ekki betri árangur en raun bar vitni. Þetta kom niður á æfingasókn hjá leikmönnum og áhuginn fór þverrandi eftir því sem leið á veturinn. Sökum þess treysti þjálfarinn sér ekki til að halda áfram og urðu þjálfaraskipti þann 10. mars. Ákveðið var á stjórnarfundi að Árni Friðriksson tæki að sér þjálfun liðsins.

Fyrsti leikur sumarsins var 25. maí, gegn Neista, Hofsósi, sem vann með 5 mörkum gegn 1. Úrslit sumarsins urðu sem hér segir:
Neisti – Þrymur 5-1
Þrymur – Hvöt 1-6
HSÞ b – Þrymur 9-1
SM – Þrymur 4-2
Þrymur – UMSE b 1-4
Kormákur – Þrymur 7-0

Þrymur – Neisti 0-2
Hvöt – Þrymur 6-l
Þrymur - HSÞ b 1-8
Þrymur – SM 2-2
UMSE b Þrymur 9-0
Þrymur – Kormákur 1-4

Lokastaðan

Leikir

Sigrar

Jafntefli

Töp

Markatala

Stig

Hvöt

12

8

4

0

47-18

28

HSÞ b

12

7

3

2

41-16

24

Kormákur

12

7

1

4

34-15

22

Neisti

12

4

3

5

21-25

15

SM

12

3

3

6

19-30

12

Þrymur

12

0

1

11

11-66

1

(Ísl. knattsp.1991 bls. 81)

Þrymur fékk slæma útreið þetta sumar og var með áberandi slakasta liðið í sínum riðli en samt var haldið áfram þrátt fyrir mikið mótlæti. Þurfti oft að smala í leikina til að hafa fullskipað lið. Af árangri liðsins að segja, má hafa eftir ummæli stjórnarinnar í ársskýrslu UMSS 1991: „Árangurinn verður ekki mældur í stigum eða fjölda marka, heldur þeim mikla mannskap sem tók þátt í mótinu og ánægjunni sem því fylgdi.“

Þrymur tók þátt í héraðsmóti UMSS í knattspyrnu þetta sumar og betur gekk þar en í Íslandsmótinu, því fleiri stig náðust í viðureignum við andstæðingana. En svona var lokastaðan á mótinu:
UMF Tindastóll 14 stig
UMF Neisti 10 -
Þrymur 8 -
UMF Glóðafeykir 2 –

Á haustdögum var ákveðið að stofna körfuknattleiksdeild innan félagsins, sem hefði sér stjórn og sjálfstæðan fjárhag og tæki þátt í Íslandsmóti í körfuknattleik. Þriggja manna stjórn var kjörin:
Halldór Ingi Steinsson formaður
Birgir Valgarðsson gjaldkeri
Stefán Ó. Stefánsson ritari

Ekki er ætlun mín að greina frá starfsemi deildarinnar nánar. En á aðalfundi félagsins þann 16. janúar árið eftir var deildin viðurkennd í félagið. Breyta þurfti lögum um aðalstjórn og var samþykkt að stjórn knattspyrnudeildar væri í senn stjórn deildarinnar og aðalstjórn félagsins. Ný stjórn var skipuð og hlutu eftirfarandi kosningu:
Formaður Pál1 Friðriksson
Varaformaður Ragnar Kárason
Gjaldkeri Sigrún Angantýsdóttir
Ritari Halldór I. Steinsson
Meðstjórnandi Árni Friðriksson
(Fundarg. bók)

Þriðja starfsár 1992
Eins og fyrra ár gekk illa að finna þjálfara fyrir liðið en mikið var pressað á Þórarin Thorlacius að reyna aftur og tókst að lokum að fá samþykki hans til þess. Leikmenn voru jákvæðir, áhuginn óx og æfingasóknin jókst og leikið var af krafti þótt úrslit yrðu óhagstæð. Þó tókst Þrymi betur upp en árið áður og fékk fleiri stig.

Úrslit urðu þessi:
Kormákur – Þrymur 6-0
Þrymur – SM 1-1
Hvöt – Þrymur 7-0
Neisti – Þrymur 4-0
Þrymur - HSÞ b 1-5

Þrymur – Kormákur 0-4
SM – Þrymur 0-1
Þrymur – Hvöt 1-4
Þrymur – Neisti 0-6
HSÞ b – Þrymur 3-1

Lokastaðan

Leikir

Sigrar

Jafntefli

Töp

Markatala

Stig

Hvöt

10

10

0

0

33-8

30

Kormákur

10

6

1

3

23-9

19

Neisti

10

5

0

5

23-17

15

HSÞ b

10

5

0

5

23-21

15

SM

10

1

2

7

13-25

5

Þrymur

10

1

1

8

5-40

4

(Ísl. knattsp. 1992 bls. 81)

Fyrsti titill sem Þrymur fékk var í héraðsmóti UMSS í knattspyrnu. Þar kepptu þrjú lið: Þrymur, Neisti og Tindastóll b og vann Þrymur mótið með sigri á Neista og jafntefli við Tindastól b og varð þar með héraðsmeistari.

Um mitt sumar skráðu sig nokkrir drengir til þátttöku í héraðsmóti UMSS í frjálsum íþróttum og sundi. Tveir þeirra unnu til verðlauna.
Í sundi: Keppandi Birgir Valgarðsson - 100 m bringa 3. verðlaun.
Í frjálsum: Keppandi Árni Friðriksson - Sleggjukast 3. verðlaun.

Á haustdögum 1992 var ákveðið að færa út kvíarnar enn meira og gefa mönnum kost á að kynnast og æfa glímu. Þar fór Árni Friðriksson fremstur manna. Hann var búinn að kynnast íþróttinni áður og gat miðlað þekkingu sinni til áhugasamra glímukappa framtíðarinnar. Í janúar 1993 var svo glímudeild stofnuð og Oddbjörn Magnússon kjörinn formaður. Deildin var samþykkt sem sér deild innan Knattspyrnufélagsins Þryms á aðalfundi þess 1993.

Lokaorð
Frá stofnun félagsins og fram að aðalfundi 29. janúar 1993 hefur Knattspyrnufélagið Þrymur vaxið jafnt og þétt. Stofnfélagar voru um 30, en félagar voru komnir upp í rúm 90 þremur árum síðar og störfuðu í þremur deildum. Það má sjá út frá þessari samantekt að félagið á sér bjarta framtíð um ókomin ár ef rétt er haldið á spöðunum.

Enn keppir Þrymur

Þó Þrymur sé ekki til í dag sem eiginlegt íþróttafélag er samt verið að keppa undir þess nafni enn í dag. Einn af gömlu kempunum, Óli Viðar Andrésson, stendur styrkur í brúnni og skráir félagið í tvö til þrjú fótboltamót á ári.

„Það sem við höfum verið að reyna að gera er að taka þátt í þremur mótum á ári og staðið okkur alveg prýðilega í því. Við höfum meira að segja hampað titli þegar við unnum í Pollamóti Þórs fyrir þremur árum síðan [2017]. Svo spiluðum við til úrslita á Wurth mótinu í vetur, [nóv. 2029] en enduðum í öðru sætinu. Við höfum verið að fara á þessi þessi þrjú mót, Pollamótið og jólamót Þórs á Akureyri og Wurth mótið fyrir sunnan,“ segir Óli en ekki er um neinar skipulagðar æfingar að ræða hjá félaginu. „Það er hver í sínum hóp og stundum hafa menn utan Skagafjarðar einnig tekið þátt með okkur. Við erum enn að spila í flokki 38+ en meðalaldurinn var 48 ára í síðasta móti af því að það var einn sem ekki hafði náð fertugsaldrinum og komumst þess vegna ekki í 40+.“

Þegar Óli er beðinn um að rifja upp smá úr fortíðinni segir hann upplifunina af því að vera í Þrym algjörlega stórbrotna. „Það var alveg gríðarlega gaman. Mikill keppnisandi í liðinu og menn lögðu sig iðulega allan fram, bæði utan vallar sem innan. Ég var í fjögur sumur en við unnum aldrei neina titla þá, en mjög gaman samt. Þetta var orðið helvíti þunnt þarna í restina og líklega var það sumarið 1995 sem keppt var í Íslandsmótinu í síðasta sinn.

Áður birst í 4. tbl. Feykis 2020.

Hér fyrir neðan má sjá vídeó sem tekið var á Wurth móti 2014.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir