Tindastóll og Hvöt/Fram á Goðamóti Þórs í 6. flokki kvenna

Hvöt/Fram 2 sem sigruðu E-riðil á mótinu. Mynd tekin af Facebook-síðu Knattspyrnudeildar Hvatar.
Hvöt/Fram 2 sem sigruðu E-riðil á mótinu. Mynd tekin af Facebook-síðu Knattspyrnudeildar Hvatar.

Um sl. helgi fór fram Goðamót Þórs hjá 6. flokki kvenna í Boganum á Akureyri og sendu bæði Tindastóll og Hvöt/Fram nokkur lið til leiks. Á föstudeginum var hraðmót og spilaðir voru þrír leikir 2*7 mínútur þar sem úrslit leikja sögðu til um í hvaða styrkleikaflokki (A-F) hvert lið spilaði í á laugardeginum. Þá voru einnig spilaðir þrír leikir en hver leikur var 2x10 mínútur og voru svo úrslitaleikir á sunnudeginum þar sem spilað var um sæti.Tindastóll sendi þrjú lið til leiks, Drangey, Málmey og Lundey og Hvöt/Fram sendi tvö lið, lið 1 og lið 2.

Tindastóll Drangey spilaði í A-riðli þar sem þær unnu alla sína leiki á föstudeginum, unnu svo tvo en töpuðu einum á laugardeginum. Þær spiluð svo á sunnudeginum um 1.-4. sætið en enduðu í 3. sæti án þess að tapa leik því ef upp kemur jafntefli þá fer liðið sem skoraði síðasta markið í leiknum sjálfkrafa áfram og lutu þær því í lægra haldi fyrir Breiðablik, sem vann mótið, en unnu Þór.

Hvöt 1 vann sig upp í A–riðil eftir föstudaginn og tapaði einungis á móti Tindastól. Daginn eftir töpuðu þær tveimur leikjum en unnu einn sem gaf þeim að þær spiluðu um 5.- 8. sætið á sunnudeginum. Þar unnu þær einn leik og töpuðu einum og enduðu í 6. sæti. Frábær árangur hjá stelpunum.

Tindastóll Málmey gerði eitt jafntefli, vann einn leik og tapaði einum á hraðmótinu á föstudeginum. Sama saga var hjá þeim á laugardeginum þar sem þær gerðu eitt jafntefli, unnu einn sigur og töpuðu einum leik. Á sunnudeginum töpuðu þær báðum leikjum sínum en voru svakalega flottar á þessu móti.

Stelpurnar í Hvöt 2 unnu tvo leiki og töpuðu einum á hraðmótinu á föstudeginum og spiluðu í E-riðli á laugardeginum þar sem þær unnu alla sína leiki. Næsta dag unnu þær einnig alla sína leiki og urðu þar af leiðandi í 1. sæti í E-riðli. Til hamingju með árangurinn stelpur.

Tindastóll Lundey gerði tvö jafntefli og töpuðu einum leik á föstudeginum en unnu tvo leiki og töpuðu einum á laugardeginum. Þær töpuðu svo báðum leikjunum sínum á sunnudegi en stóðu sig frábærlega vel og gáfust aldrei upp þó leikirnir hafi verið erfiðir.

Allar þessar flottu stelpur sem spiluðu á mótinu fyrir bæði Tindastól og Hvöt/Fram voru liðum sínum til mikils sóma og mátti sjá framfarir hjá þeim öllum á mótinu. Það verður gaman að fylgjast með þessu fótboltastúlkum í framtíðinni.  

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir