Tindastólsliðið á toppinn eftir þægilega stund í Síkinu

Anika Hjálmarsdóttir með boltann. MYND: SIGURÐUR INGI
Anika Hjálmarsdóttir með boltann. MYND: SIGURÐUR INGI

Kvennalið Tindastóls í 1. deildinni í körfubolta spilaði í gærdag gegn stigalausu liði ÍR og skellti sér upp að hlið KR og Ármanns á toppi deildarinnar. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 19-3 fyrir Stólastúlkur og það væri synd að segja að leikurinn hafi á nokkrum tíma verið spennandi. Niðurstaðan því góður sigur og lokatölur 90-31.

Lið Tindastóls gerði fyrstu 13 stig leiksins áður en Heiða Clausen Jónsdóttir minnkaði muninn með því að setja niður eitt vítaskot. Helgi nýtti bekkinn vel í leiknum og allar fengu stúlkurnar góðan leiktíma. Staðan í hálfleik var 38-18 en það var engin miskunn í þriðja leikhluta sem fór 35-5 en þá kom kafli þar sem lið Tindastóls gerði 32 stig án þess að ÍR-stúlkur næðu að svara fyrir sig.

Allar ellefu Stólastúlkur á skýrslu spiluðu meira en tíu mínútur í leiknum en mest spilaði Eva Rún sem endaði stigahæst. Hún gerði 18 stig og átti sex stoðsendingar. Okoro spilaði í tæpar 15 mínútur og gerði á þeim tíma 16 stig og stal sex boltum og þá gerðu Klara Sólveig og Brynja Líf ellefu stig hvor.

Nú er keppni í 1. deild kvenna svo undarlega uppsett að næstu fimm leikir Stólastúlkna eru allir á útivelli. Næsti leikur er gegn baráttuglöðu liði Hamars/Þórs en hann fer fram 27. janúar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir