Tómt vesen Tindastóls í Sláturhúsinu

Jaka Brodnik var stigahæstur Tindastólsmanna í gær. Hér er hann í leik gegn Val fyrr á árinu. MYND: HJALTI ÁRNA
Jaka Brodnik var stigahæstur Tindastólsmanna í gær. Hér er hann í leik gegn Val fyrr á árinu. MYND: HJALTI ÁRNA

Lið Tindastóls var lítil fyrirstaða fyrir sterkt lið Keflavíkur þegar liðin mættust í Sláturhúsinu suður með sjó í gærkvöldi. Stólarnir héldu í við heimamenn í fyrri hálfleik en voru níu stigum undir í hálfleik, 48-39. Í þriðja leikhluta stigu Keflvíkingar bensínið í botn og Stólarnir virkuðu bæði orku- og ráðalausir. Lokatölur 107-81 og hollingin á okkar piltum ekki par góð.

Heimamenn voru í stuði frá fyrstu mínútu og voru yfir, 11-0, eftir tveggja mínútna leik. Baldur tók þá leikhlé og barði í brestina og strákarnir svöruðu fyrir sig, náðu að koma sér inn í leikinn og staðan 14-12 þegar tæpar sex mínútur voru liðnar. Jaka Brodnik, sem átti ágætan leik, setti tvo þrista undir lok fyrsta leikhluta og staðan 23-22. Eftir aðeins sjö mínútna leik var Shawn Glover kominn með þrjár villur í liði Tindastóls og það hamlaði honum í vörninni og ekki gátu Tindastólsmenn leitað til risans Antanas Udras en honum var illt í hendinni að sögn Baldurs þjálfara.

Yfirleitt munaði fimm til níu stigum í öðrum leikhluta en í hálfleik var staðan 48-39 og lið Tindastóls enn í möguleika. Eftir fimm mínútna leik í þriðja leikhluta höfðu heimamenn hins vegar gert 16 stig en Tindastólsmenn fjögur og ljóst að það var ólíklegt að Stólarnir tækju stigin tvö með sér heim úr Sláturhúsinu. Þristur frá nýjum kana Keflvíkinga, Max Montana, jók muninn í 28 stig, 76-48, en Max var síðan í næstu sókn Tindastóls heppinn að fá að vera áfram í húsinu eftir að hafa sett olnbogann í andlitið á Hannesi Inga. Erfitt að sjá hvernig sú hreyfing gat talist eðlileg og ekki verðskuldað brottrekstur en kappinn fékk þó óíþróttamannslega villu. Í kjölfarið náðu Stólarnir 0-8 kafla og löguðu stöðuna þannig að 20 stigum munaði fyrir síðasta leikhlutann sem reyndist að sjálfsögðu hálfgert formsatriði því heimamenn voru sterkari á öllum sviðum körfuboltans í gærkvöldi.

Útlendingahersveit Keflvíkinga er vel mönnuð og þeir létu mikið að sér kveða í leiknum auk Harðar Axels sem að öðrum ólöstuðum var besti leikmaður parketsins. Gerði 16 stig og átti 14 stoðsendingar. Milka var að venju feikigóður með 23 stig og 15 fráköst – þar af tíu sóknarfráköst og þá gerði Calvin Burks Jr með 21 stig og níu fráköst. Liðsheild heimamanna var mjög sterk og samsetning liðsins frábær. Það sama verður ekki sagt um lið Tindastóls um þessar mundir því þrátt fyrir ágætan mannskap er samvinnan ekki eins og við eigum að venjast. Glover og Viðar lentu snemma í villuveseni og Udras var fjarri góðu gamni þó hann væri í fullum herklæðum á bekknum. Hvorki Tomsick né Pétur náðu sér á strik í gær og þá er brekka. Brodnik var með 20 stig og nýtti skotin sín vel, Glover var með 14 stig en það voru varnarjaxlarnir Helgi Rafn og Viðar sem komust hvað best frá leiknum; Helgi Rafn með tíu stig og tíu fráköst og Viðar níu stig og fimm fráköst.

Þá gerði Þráinn Svan fjögur stig á þeim 57 sekúndum sem hann spilaði í lok leiks auk þess sem hann tók tvö fráköst. Miðað við meðaltalsfræðin hefði hann tekið 81 frákast og skorað 164 stig hefði hann spilað allar 40 mínúturnar. Eða þannig.

Nú á fimmtudag kemur lið Grindavíkur í heimsókn og þá vonandi stíga Stólar upp og sína sparihliðina. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir