Valsmenn meistarar meistaranna

Valsmenn fagna sigri og lyfta bikar. MYND: HJALTI ÁRNA
Valsmenn fagna sigri og lyfta bikar. MYND: HJALTI ÁRNA

Körfuboltatímabilið fór formlega af stað í gærkvöld þegar Íslandsmeistarar Tindastóls tóku á móti bikarmeisturum Vals í leiknum Meistarar meistaranna. Leikurinn var ansi fjörugur en á löngum köflum voru heimamenn ansi villtir í sínum leik. Gestirnir náðu yfirhöndinni í öðrum leikhluta og Stólarnir náðu aldrei í skottið á þeim eftir það. Það fór því svo að Valsmenn unnu fjórða leikinn í Síkinu í röð, að þessu sinni 72-80, og kannski er þetta bara orðið nóg í bili.

Það vantaði ekki að það var vel mætt í Síkið í gær, vel staðinn hringurinn og hellingur á pöllunum. Liðin komu pínu löskuð til leiks en í lið Tindastóls vantaði Stephen Domingjo en Kári Jóns var m.a. ekki með Völsurum. Jafnræði var með liðunum í byrjun leiks, Valsmenn byrjuðu betur en Pétur smellti niður tveimur þristum og kom sínum mönnum yfir og þeir leiddu, 14-9, um miðjan leikhlutann. Þá komust gestirnir betur inn í leikinn og staðan var jöfn, 18-18, að leikhlutanum loknum. Valsarar gerðu síðan fyrstu sex stig annars leikhluta og voru sprækari fram að hléi en þeir leiddu þá með tíu stigum. Staðan 32-42.

Það gekk illa hjá Stólunum að ráðast að körfu gestanna í síðari hálfleik og um miðjan þriðja leikhluta var munurinn kominn í 15 stig. Staðan 39-54. Lítið gekk að vinna muninn upp og mínútu fyrir lok þriðja leikhluta skellti Kristinn Pálsson í þrist og forskot Valsmanna var þá orðið 16 stig, staðan 45-61, en fimm stig frá Callum Lawson komu Stólunum inn í leikinn fyrir loka leikhlutann. Enn og aftur byrjuðu Valsmenn betur og voru strax komnir með 15 stiga forskot. Pavel tók þá leikhlé og upp úr því gerðu heimamenn níu stig í röð, staðan 59-65, og nóg eftir af klukkunni. Síðustu mínúturnar voru aftur á móti mjög villtar Stólarnir náðu aldrei að ógna Valsmönnum að ráði. Lokatölur því 72-80 og Valsmenn Meistarar meistaranna.

Leikurinn sem fyrr segir fjörugur en Tindastólsmenn bíða nú spenntir eftir að taka flugið til Eistlands og spila í Evrópukeppninni. Í gær fengu flestir leikmenn góðar mínútur til að spretta úr spori en það voru aðeins Veigar Svavars og Axel Kára sem komu ekki við sögu og Domingo í borgaralegum en hann var ekki kominn með leikheimild samkvæmt upplýsingum Feykis. Stólunum gekk illa að halda Valsmönnum fyrir framan sig í vörninni og fengu gestirnir því of oft góða braut að körfu heimamanna.

Þórir var stigahæstur í liði Tindastóls með 20 stig en næstir voru Davis Geks og Lawson með 13 stig hvor og Arnar 11. Í liði Vals var Kristinn Pálsson öflugur með 23 stig og Acox skilaði átján stigum og 17 fráköstum. Þá var Hjálmar Stefáns öflugur með 14 stig og níu fráköst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir