Vantaði upp á orkustigið og stemninguna

Jordyn Rhodes gerði mark Stólastúlkna í gær þó svo að Bryndís Rut sé skráð fyrir því hjá KSÍ. Hér er Jordyn á ferðinni í fyrsta leik sumarsins gegn FH. MYND: ÓAB
Jordyn Rhodes gerði mark Stólastúlkna í gær þó svo að Bryndís Rut sé skráð fyrir því hjá KSÍ. Hér er Jordyn á ferðinni í fyrsta leik sumarsins gegn FH. MYND: ÓAB

„Þetta var ekkert sérstakur leikur af okkar hálfu og við getum betur, sérstaklega með boltann,“ sagði Donni þjálfari Stólastúlkna þegar Feykir spurði hann út í bikarleikinn gegn liði Þórs/KA sem fram fór í gær en Akureyringar höfðu betur 1-2. „Vissulega spila aðstæður stóran þátt því það var mikill vindur á annað markið. En jafnvel með vindinum fannst mér pláss til að gera betur. Úrslitin voru svekkjandi og sanngjörn en frammistaðan er það sem við horfum í og þar viljum við gera betur.“

Hvað fannst þér vanta upp á hjá liðinu? „Halda betur i boltann og vera klókari með hann. Taka betri ákvarðanir og vanda sendingarnar betur. Einnig fannst okkur vanta aðeins upp á stemninguna og orkustigið. Við lögum það og höldum áfram.“

Hver er staðan með Gabby og Löru? „Gabby er erlendis hjá fjölskyldunni á meðan hún hvílir fótinn sinn og kemur til landsins i lok næstu viku og er mögulega klár í næsta leik. Lara er i útskriftaferð og kemur eftir helgina og verður klár í næsta leik.“

Eru Krista og Kristrún góð viðbót í hópinn og leikfærar? „Krista er tiltölulega ný komin til baka [frá USA] og það er klárlega styrkur að fá hana inn í hópinn aftur en Kristrún á ennþá aðeins i land með að geta hoppað inn á völlinn og látið til sín taka. Þó styttist og verður frábært fyrir okkur þegar hún verður tilbúin á ný eftir alltof langa fjarveru.

Ertu ánægður með á hvaða stað liðið er fótboltalega séð? „Liðið hefur verið frábært nuna i byrjun sumars og heilt yfir erum við mjög sátt með byrjunina og þó við séum ekki sátt með þennan leik þá tapaðist hann samt bara með minnsta mun. Þetta er allt í fínum málum og við verðum bara ennþá betri með tímanum,“ sagði Donni að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir