Vantar fólk í stjórn knattspyrnudeildar Tindastóls

Aðalfundur knattspyrnudeildar Tindastóls verður haldinn í Húsi frítímans í kvöld fimmtudaginn 4. febrúar kl. 20:00. Núverandi stjórnarmeðlimir hafa gefið út að þeir láti af störfum og því vantar fólk til að manna nýja stjórn.

Feykir hefur haft spurnir af því að enn eigi eftir að finna fólk sem er tilbúið að starfa fyrir deildina en mikil leit hefur staðið yfir að einstaklingum sem láta verkefni deildarinnar sig varða. Eru allir áhugasamir hvattir til að hafa samband við núverandi stjórnarmeðlimi hvort sem þeir bjóða fram krafta sína eða leita upplýsinga. Samkvæmt heimildum Feykis er stefnt á að ráða framkvæmdastjóra fyrir deildina, stjórninni til halds og trausts.

„Það eru spennandi tímar framundan hjá deildinni og hvetjum við því alla sem hafa áhuga á að starfa í deildinni að mæta, margar hendur vinna létt verk,“ segir í auglýsingu sem birtist í Sjónhorni fyrir skömmu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir