Algjörlega geggjuð Spánarferð fótboltastúlknanna frá Norðurlandi vestra

Stelpurnar ásamt Gunnar þjálfara sínum fagna sæti í fjöugrra liða úrslitum. MYNDIR: ÞÓREY
Stelpurnar ásamt Gunnar þjálfara sínum fagna sæti í fjöugrra liða úrslitum. MYNDIR: ÞÓREY

Úrvalslið Tindastóls, Hvatar og Kormáks (THK) í 3. flokki kvenna fór snilldar æfinga- og keppnisferð til Salou á Spáni nú seinni partinn í mars og tók þar þátt í Costa Daurada Cup. Það er skemmst frá því að segja að stelpurnar stóðu sig með miklum glæsibrag og skiluðu sér í undanúrslit þar sem þær urðu að þola tap gegn liði frá Japan. Þær urðu því að deila 3.-4. sæti með liði sem kallast Bayern Munchen. Feykir plataði einn af liðsstjórum hópsins, Þóreyju Gunnarsdóttur, til að segja frá Spánarferðinni sem hún segir hafa verið algjörlega geggjaða.

Þórey segir að hópurinn hafi lagt af stað sólarhring fyrr en áætlað var vegna slæmrar veðurspár. Ekki gekk ferðalagið þó alveg þrautalaust því hópurinn þurfti m.a. að dúsa á N1 í Borgarnesi og bíða þar í u.þ.b. þrjá tíma eftir að vindhviðurnar dyttu niður undir Hafnarfjalli. „Gísli rútubílstjóri hjá Suðurleiðum tók enga sénsa með þenna dýrmæta farm,“ segir Þórey.

Fótboltaæfingar og hópefli

„Flogið var til Barcelona með hópinn sem taldi 19 stúlkur, þrjá liðstjóra og Gunnar þjálfara [tók við liðinu í febrúar en kom norður frá Fjölni]. Þaðan var keyrt með rútu til Salou sem er um 100 km frá Barcelona. Þar gisti hópurinn á góðum stað sem heitir Cambrils Park family resort og hýsir allt íþróttafólkið sem nýtir þetta frábæra íþróttasvæði.“ Þórey segir stelpurnar hafa tekið fyrstu þrjá dagana í góðar fótboltaæfingar og hópefli á fótboltasvæðinu og var veðrið alveg frábært, sól og hiti.

Mánudaginn 25. mars hófst síðan mótið sem heitir Costa Daurada Cup en þar var liðið skráð til leiks undir nafni Tindastóls. „Á þessu móti voru lið frá 20 löndum sem tóku þátt, u.þ.b. 5000 keppendur. Við vorum ekki einu íslendingarnir þar heldur voru þar einnig Víkingur Ólafsvík 3.fl. kk. Stelpurnar voru í B riðli og voru riðlarnir átta, fjögur lið í hverjum þeirra, samanlagt 32 lið í flokki G17. Stúlkurnar okkar áttu sinn fyrst leik við Madrid frá Spáni sem er mjög sterkt lið og telst til Top clubs á mótinu en Tindastóls stelpurnar létu það ekki hræða sig og unnu þann leik örugglega 6-0. Daginn eftir áttu þær tvo leiki og byrjuðu á að spila við Ce Jupiter, einnig frá Spáni, og völtuðu stelpurnar okkar yfir þær, 7-0, og seinni leikinn var spilaður við Cd Sanse frá Spáni og vann THK þær 3-0.“

Nú voru stelpurnar komnar í 16 liða úrslit og áttu þær leik kl. 11 daginn eftir við Fundació Terrasa FC og enn og aftur unnu stelpurnar öruggan sigur, 5-0. „Þar af leiðandi voru þær komnar í 8 liða úrslitin og tóku því næsta leik kl. 16 við NF Academy frá Portúgal og unnu hann líka 2-1. Þá brutust út mikil fagnaðarlæti, enda voru þær þarna komnar í 4 liða úrslitin,“ segir Þórey.

Alla leið í undanúrslit

Síðasti og þriðji leikur dagsins hófst kl. 19 og þá byrjaði að rigna. „Leikurinn var spilaður í góðri dembu við lið frá Japan sem heitir Jfa Academy Imbari og var æsispennandi. Þrátt fyrir góðan stuðning frá leikmönnum Víkings Ólafsvík höfðu japönsku stelpurnar betur og unnu leikinn 4-0 og þar með lauk okkar keppni á þessu móti. Stelpurnar geta svo sannarlega gengið með höfuðið hátt frá þessu skemmtilega móti, enda deila þær 3-4 sæti með Bayern Munich. Geri aðrir betur!

Þórey bætir við að Gunnar þjálfari hafi nýtt tímann vel á Spáni og tekið þrjá góða fundi í fundarsalnum á svæðinu og lagt stelpunum línurnar fyrir dagana. Einnig var tíminn nýttur í að fara yfir sumarið sem lítur vel út. „Stelpurnar eru klárlega í hörkuformi og hlakka til að takast á við sumarið enda standa þær jafnfætis þýska liðinu Bayern Munich og verður gaman að fylgjast með þeim á Íslandsmótinu í sumar,“ segir Þórey að lokum.

Þá má geta þess að í flokki G17 átti lið Tindastóls þrjár af 15 markahæstu stelpunum. Saga Ísey gerði átta mörk og var næst markahæst, sjötta var Birgitta Rún Finnbogadóttir með sex og Elísa Bríet var ellefta með fimm mörk skoruð á mótinu.

Sjö stúlkur frá Kormáki

Liðsstjórarnir þrír sem fóru með í ferðina voru þær Sigrún Líndal, mamma Birgittur, og Þórunn Elfa, mamma Elísu, en þær eru báðar frá Skagaströnd. Síðan var það Króksarinn Þórey sem er mamma Árdísar Lífar. Athygli vekur að sjö stúlknanna, í nítján manna hópi, eru frá Kormáki á Hvammstanga. Átta stúlkur eru frá Tindastóli en tvær þeirra koma upp í gegnum Umf. Fram á Skagaströnd en eru nú skráðar í Tindastól, enda farnar að spila með meistaraflokki í Bestu deildinni. Þrjár koma frá Hvöt á Blönduósi og ein frá Neista Hofsósi. Hér er listi yfir stelpurnar sem skipuðu hópinn:

Agnes Nótt, Blönduósi / Hvöt
Árdís Líf, Sauðárkróki / Tindastóll
Birgitta Rún, Skagaströnd / Tindastóll
Elísa Bríet, Skagaströnd / Tindastóll
Fríða Marina, Hvammstanga / Kormákur
Ísey, Hvammstangi / Kormákur
Harpa Katrín, Blönduósi / Hvöt
Harpa Sif, Sauðárkróki / Tindastóll
Katelyn Eva, Sauðárkróki / Tindastóll
Katla Guðný, Sauðárkróki / Tindastóll
Laufey Alda, Sauðárkróki / Tindastóll
Linda Fanney, Hvammstanga / Kormákur
Olga, Hvammstanga / Kormákur
Saga Ísey, Hvammstanga / Kormákur
Silja Sigurósk, Sauðárkróki / Tindastóll
Stefana Björg, Blöndósi / Hvöt
Valdís Freyja, Hvammstanga / Kormákur
Valgerður Rakel, Hofsósi / Neisti
Victoria Elma, Hvammstanga / Kormákur

- - - - -
Upptalning á stúlkunum var í fyrstu ekki alveg rétt. Tvær stúlkur sem voru skráðar frá Kormáki áttu að vera frá Tindastóli. Þá var Birgitta Rún rangt feðruð á lista yfir markaskorara. Beðist er velvirðingar á mistökunum sem nú hafa verið leiðrétt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir