Fálki handsamaður í Vatnsdalnum

Fallegur fugl fálkinn. Mynd: Róbert Daníel Jónsson.
Fallegur fugl fálkinn. Mynd: Róbert Daníel Jónsson.

Sigurður Rúnar Magnússon á Hnjúki í Vatnsdal, handsamaði fálka sem eitthvað var skaddaður lét þá Róbert Daníel Jónsson og Höskuld Birki Erlingsson lögreglumann á Blönduósi vita. Þeir fóru á staðinn og kíktu á fuglinn og úr varð að þeir tóku fálkann með sér á Blönduós höfðu samband við Náttúrufræðistofnun og sendu hann síðar í Húsdýragarðinn.

Á Facebook síðum þeirra Róberts og Höskuldar kemur fram að fuglinn hafi verið settur í búr og settur um borð í flutningabifreið frá Vörumiðlun sem ferjaði hann suður í Húsdýragarð. „Bráðabirgðagreining gengur út frá því að þarna sé um að ræða fullorðinn kvenfugl. Dætur Sigurðar og Maríönnu, þær Bríet Sara og Harpa Katrín gáfu henni þetta flotta nafn ÓGN. Vonandi á henni Ógn eftir að vegna vel og hægt verði að laga það sem að er,“ segja þeir Daníel og Höskuldur.

Á Fuglafræðivefnum segir að fálki eða valur sé stór og tígulegur ránfugl, með langa, breiða, odddregna vængi og langt stél, stærsti fugl fálkaættarinnar.

Fálkinn flýgur með hröðum, kraftmiklum vængjatökum, grípur oft til renniflugs, er hraðfleygur og mjög fimur á flugi. Fálkinn gefur frá sér hvellt væl á varpstöðvum en gargar reiðilega þegar hann er í árásarhug, er þó oftast þögull.

Aðalfæða fálkans er rjúpa, sem hann slær með klónum á flugi eða grípur á jörðu niðri. Veiðir flestar tegundir fugla, en það fer talsvert eftir veiðilendum hvaða bráð verður fyrir valinu, allt frá fullorðnum heiðagæsum niður í þúfutittlinga og auðnutittlinga, einnig hagamýs.

Meðfylgandi myndir tók Róbert Daníel Jónsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir