Fjölmenn vígsla hesthússins á Staðarhofi

Fjöldi manns mætti á vígslu hesthússins að Staðarhofi í fyrrum Staðarhreppi í Skagafirði sl. föstudag og samglöddust eigendum, þeim Sigurjóni Rúnari Rafnssyni og Maríönnu Rúnarsdóttur.

Sigurjón segist ekki hafa talið gestina fyrr en flestir voru farnir en þá taldi hann um 120 manns. Segir hann að líklega hafi um 300-350 manns komið í húsið þetta föstudagskvöld, þegið drykki og matarmiklar súpur og notið stundarinnar með þeim Maríönnu.

Alls er byggingin um 1.200 m² að stærð með pláss fyrir 40 hross auk tamningaaðstöðu sem er um helmingur hússins. Fjöldi verktaka kom að byggingu hússins en Uppsteypa var aðal verktaki og Steypustöð Skagafjarðar með alla jarðvegsvinnu. Tengill sá um rafmagnið, Vélaverkstæði KS smíðaði innréttingar, KÞ lagnir sá um lagnavinnu, Hendill með múrverk, Doddi málari með málaravinnu, Verkfræðistofan Stoð með mælingar og þakið kom frá Límtré Vírnet. Arkitekt hússins er Þórir Guðmundsson.

„Ástæðan fyrir því að við lögðum mikið í þetta er aðallega sú að til þess að ná besta fólkinu til að vinna við tamningar og þjálfun kynbóta- og keppnishrossa þarf aðstaðan að uppfylla kröfur sem nútíminn gerir til þess að hægt sé ná árangri. Auðvitað bætir aðstaðan ekki hrossin í grunnin en gerir fólki kleift að vinna við bestu aðstæður allt árið um kring sem eykur samkeppnishæfnina. Markmiðið er að leigja helminginn af aðstöðunni til atvinnufólks, sem myndi síðan greiða að hluta með tamningum og þjálfun fyrir okkur. Sjálfur held ég nú bara áfram að ríða honum Grána gamla, það er ekkert að fara að breytast hjá mér,“ segir Sigurjón og hlær þegar talið berst að umfanginu. Hann segir frúna eiga eftir að verja miklum tíma í hesthúsinu og vonandi ásamt sonum þeirra en Atli Freyr Maríönnuson stundar nú nám í Háskólanum á Hólum.

„Maður vonar bara að þetta verði hvatning fyrir aðra því góð aðstaða er orðið lykilatriði til árangurs,“ segir Sigurjón sem var mættur snemma morguninn eftir ásamt fjölskyldunni til að þrífa eftir veisluna svo hægt væri að taka inn hross, og það var gert seinni partinn sama dag. „Það eru nú bara fjögur stykki sem voru tekin inn fyrsta daginn, en svo kemur í ljós hvernig úr verður spilað þegar fer að hausta.“

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem teknar voru í upphafi veislunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir