Fólksfjöldi og fjör á Hofsós heim um helgina

Góð stemning var á Hofsósi um síðastliðna helgi þegar fjöldi manns sótti bæjarhátíðina Hofsós heim. Myndir:FE
Góð stemning var á Hofsósi um síðastliðna helgi þegar fjöldi manns sótti bæjarhátíðina Hofsós heim. Myndir:FE

Bæjarhátíðin Hofsós heim var haldin um síðustu helgi og var þar margt til skemmtunar. Fjöldi manns tók þátt í gönguferð í Grafarós með leiðsögn Þorsteins Þorsteinssonar (Steina Pálu) og á eftir gæddu u.þ.b. 250 gestir sér á ljúffengri kjötsúpu, matreiddri af Félagi eldri borgara. Kvöldið var milt og á eftir naut fólk samverunnar við varðeldinn í fjörunni áður en haldið var á ball í Höfðaborg eða í stuðið með Geira í Sólvík.

Þrátt fyrir duglega rigningu á laugardag var mikil stemning á bændamarkaði í Pakkhúsinu og í félagsheimilinu þar sem haldin var söngvarakeppni fyrir ungu kynslóðina og ýmsir aðilar buðu varning til sölu. Í Konungsverslunarhúsinu opnaði listamaðurinn Helgi Þorgils Friðjónsson sýningu á verkum sem hann hefur unnið á Hofsósi. Margt fleira mætti telja en myndirnar tala sínu máli.

Undirbúningsnefnd hátíðarinnar vill koma á framfæri kærum þökkum til allra sem sóttu hátíðina og þeirra sem sem lögðu hönd á plóg við undirbúning og framkvæmd og eins þeirra fjölmörgu styrktaraðila sem gerðu hátíðina aða veruleika. „Sérstakar þakkir til starfsfólks sveitarfélagsins sem sýndi einstök liðlegheit og velvild við undirbúning og síðast en ekki síst viljum við þakka lögreglu og rekstraraðila tjaldstæðisins gott samstarf,“ segir Vala Ófeigsdóttir sem sat í undirbúningsnefnd hátíðarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir