Glimrandi skemmtun í Miðgarði með skagfirskum jólastjörnum

Frábær stemning var á tónleikunum. MYNDIR: ÓAB
Frábær stemning var á tónleikunum. MYNDIR: ÓAB

Á laugardagskvöld fjölmenntu Skagfirðingar í Menningarhúsið Miðgarð í Varmahlíð þar sem fyrir dyrum stóðu tónleikarnir Jólin heima. Fullt var út úr dyrum og voru gestirnir vel með á nótunum frá fyrsta lagi til hins síðasta og fóru þakklátir út í kyrrt og kalt vetrarkvöldið að mögnuðum tónleikum loknum, með vænan skammt af jólagleði í hjarta.

Miðgarður var orðinn þéttfullur hálftíma áður en tónleikarnir hófust og margir með annað augað á símanum að fylgjast með leik Frakklands og Englands á HM. Leikurinn kláraðist tímanlega og eftir smá hjal milli jólasveinsins og kattarins þá steig Rannveig Stefáns fyrst á svið og heillaði strax áheyrendur. Síðan rak hver söngsnillingurinn annan og tíminn flaug fiðurléttur út í buskann. Dagný Erla var á ljúfu nótunum, Valdís Valbjörns mátaði skó Jóhönnu Guðrúnar, Eysteinn Ívar fór í föt Pálma Gunn, systurnar Sóla og Malen heimsóttu Trölla og Gunnar Hrafn vildi komast heim um jólin – þó nýkominn í Skagafjörðinn. Svona rúllaði þetta áfram og hvergi sló frábær hljómsveit kvöldsins feilnótu. Emelíana Lillý söng Einmana á jólanótt við mikla hrifningu gesta og bræðurnir Ingi Sigþór og Róbert Smári töfruðu fram magnað Gamlárskvöld í anda Baggalúts og allir voru til í partý með þeim. Hljómsveitarstjórinn, Sigvaldi Gunnars, sló botninn í kvöldið og tilkynnti gestum að jólin væru að koma.

Þetta er nú bara smá upptalning því flestir tóku söngvararnir nokkur lög, ýmist einir eða í félagi við aðra. Þeir voru bakkaðir upp af frábærri bakraddasveit sem var oftar en ekki skipuð þeim sem ekki voru fremst á sviðinu í það skiptið. Kynningar milli laga geta oft reynst söngvurum strembnar og skiptir þá litlu hversu frægir þeir eru. Hér gekk allt eins og í sögu, kynningar hressilegar og skemmtilegar. Sem fyrr segir var hljómsveitin tipptopp. Sigvaldi og Sæþór sáu um gítarleik, Eysteinn og Húnvetningurinn Fróði Snæbjörns, Arnar Freyr þandi nikkuna, Jakob Grétar trommaði og Jóhann Daði sá um slagverk. Ragnar Már þandi saxófóninn af miklum móð. Þeir Fróði, Jakob og Ragnar munu hafa verið þeir einu sem ekki teljast Skagfirðingar af þeim sem fram komu á tónleikunum.

Jólin heima voru ekki bara áheyrileg því sviðsmynd og ljós voru til fyrirmyndar. Ljós voru í höndum skagfirsku sveiflunnar hjá Exton; þeim Axel Inga, Hakoni Hjartar og Damma Hermanns. Exton sá einnig um hljóð en hljóðmaður kvöldsins var Dagur Þórarinsson.

Lagaval tónleikanna var vel heppnað en þar kenndi margra grasa – gamalt og nýtt og íslenskt og enskt í bland. Það fengu alveg örugglega allir eitthvað fyrir sinn snúð. Rétt er að þakka þetta frábæra framtak en það er Jóhann Daði Gíslason sem er hugmyndasmiður og skipuleggjandi tónleikanna sem vonandi eru komnir til að vera. Það má áætla að vel á fjórða hundrað manns hafi mætt að þessu sinni en listafólkið á skilið að enn fleiri sæki þetta sjúllaða sjó!

Það voru Kaupfélag Skagfirðinga, Tengill, Fisk Seafood og SSNV sem styrktu tónleikahaldið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir