Góð stemning á Unglingalandsmóti

Skagfirska mafían mætti á svæðið og stóð sig með stakri prýði. Mynd: PF
Skagfirska mafían mætti á svæðið og stóð sig með stakri prýði. Mynd: PF

Tuttugasta Unglingalandsmót UMFÍ var sett formlega á Vilhjálmsvelli í gærkvöldi að viðstöddu fjölmenni. Athöfnin fór fram með hefðbundnum hætti þar sem keppendur gengu fylktu liði inn á völlinn, hver með sínu félagi. Flutt voru ávörp, m.a. Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra og forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson en hann fékk hjálp hjá ungri snót sem las með honum úr gömlum fréttum af frægum köppum, þeim Vilhjálmi Einarssyni og Hreini Halldórssyni.

Þá var íslenski fáninn hylltur, unglingalandsmótseldurinn tendraður og fáni UMFÍ dreginn að húni. Fimleikafólk frá ÚÍA sýndi fimi sína ásamt því að loftfimleikar fimmmenninga í danska fimleikahópnum Motus Teeterboard voru framkvæmdir við mikinn fögnuð gesta. Að lokinni setningu hófst kvöldvaka þar sem nokkrir valinkunnir skemmtikraftar héldu uppi gleði.

Keppni hófst á fimmtudag með golfi en allt var komið í fullan gang í gærmorgun. Í dag heldur keppni áfram en í ár eru 24 mismunandi íþróttagreinar í boði þannig að allir áhugasamir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar stemningsmyndir frá gærdeginum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir