Ljósin tendruð á tré og krossi á Króknum í morgun

Vegna sóttvarnareglna var ekki um hefðbundna dagskrá að ræða við tendrun jólaljósanna á Kirkjutorgi. Mynd: PF.
Vegna sóttvarnareglna var ekki um hefðbundna dagskrá að ræða við tendrun jólaljósanna á Kirkjutorgi. Mynd: PF.

Í morgun voru ljósin á jólatrénu á Kirkjutorginu á Sauðárkróki tendruð samhliða friðargöngu Árskóla sem fram fór nú með breyttu sniði vegna Covidráðstafana og sóttvarna. Að þessu sinni var friðarljósið ekki látið ganga milli manna eins og venja er en nemendur 10. bekkjar sáu um að flytja ljósið frá kirkju og upp kirkjustiginn þar sem ljósin voru kveikt á krossinum sem stendur fremst á Nafarbrúninni.

Þrátt fyrir vindbelging og snjókomu fóru allir árgangar Árskóla frá skólanum og út í bæ, á fyrirfram ákveðna staði, þar sem þeir fylgdust með ljósatendruninni. Nemendur á yngsta stigi gengu fylktu liði inn á íþróttavöllinn. Þeir létu friðarljós ganga sín á milli og fylgdust með þegar ljósið kviknaði á krossinum á Nöfunum. Aðrir fóru í bæinn og héldu sig í sínum hópum við Kirkjutorgið en 5. bekkingar fengu að dansa í kringum jólatréð eftir það varð uppljómað. Á eftir fengu allir nemendur kakó, piparkökur og kleinur í bekkjarstofum sínum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir