Sibbi mættur með Mini-inn á götuna

Austin Mini og eigandinn. Þessi telst vera fornbíll en til þess að svo megi vera þarf bíllinn að vera 25 ára eða eldri. MYNDIR: ÚR SAFNI SIBBA OG ÓAB
Austin Mini og eigandinn. Þessi telst vera fornbíll en til þess að svo megi vera þarf bíllinn að vera 25 ára eða eldri. MYNDIR: ÚR SAFNI SIBBA OG ÓAB

Verkefnið hefur tekið dágóðan tíma en í síðustu viku skellti Sibbi sér loks á rúntinn á uppgerðum og glæsilegum 40 ára gæðingi, fagurrauðum Austin Mini, eftir að hafa dundað og dúllað við að gera þann litla upp síðan vorið 2005 þegar hann eignaðist bílinn. Fyrst fór hann smá rúnt með dætur sínar, Helgu og Önnu Jónu heitna, frá verkstæðinu sínu á Sæmundargötunni, út að Rafsjá og til baka. Síðan hófst hann handa við að rífa bílinn til grunna. „Helga sá um að rífa innan úr hurðunum og það stóð til að bíllinn yrði tilbúinn þegar hún fengi bílpróf 2009 –  það klikkaði aðeins,“ segir Sibbi kíminn.

Hvers vegna Austin Mini?„Mamma átti Mini þegar ég fékk bílpróf og í minningunni var mjög gaman að keyra hann. Svo finnst mér þeir flottir, litlir og krúttlegir, og ekki mikið til af þessum hér á landi.“ 

Svo við förum á upphafsreit og kynnum Sibba til sögunnar þá er hér að sjálfsögðu um að ræða Sigurbjörn Björnsson, bifvélavirkja, bíóstjóra og kennara við FNV svo eitthvað sé nefnt. Sibbi er sonur Bjössa Sverris og Helgu Sigurbjörns, pabbi hans auðvitað bráðsnjall í þeirri list að gera upp bíla og hans þekktasta verk á því sviði er efalaust gamli Fordinn sem lengi prýddi Minjahúsið á Króknum. Sibbi er giftur Báru hársnyrti, dóttur hans Jóns á Víðimel. Það er því ekki alveg laust við að það sé pínu bíladella í fjölskyldunni.

Mini er breskur bíll, hannaður fyrir þéttbýlið, snarpur, nettur og síðast en ekki síst; sparneytinn. Hann var settur í framleiðslu 1959 sem svar Breta við olíukreppunni sem þá ríkti. Í dag þykir Mini-inn töff, útlitið er klassískt og hefur Austin Mini leikið stórt hlutverk í kvikmyndum á borð við The Italian Job, Mr. Bean ekur Mini og hver man ekki eftir Hugh Grant að þenja Mini-inn í Four Weddings & a Funeral?

Mini-inn hans Sibba er 1980 módel og 48 hestöfl. „Ég fékk hann hjá greifanum af Sauðá en hann hafði fengið bílinn í Reykjavík, Ég byrjaði strax að falast eftir vagninum og eftir tveggja vikna þref handsöluðum við að ég fengi bílinn ef hann seldi,“ segir Sibbi en þetta var um mitt sumar 2004 en veturinn eftir kom Tryggvi til Sibba og sagði að gæti fengið bílinn. „Ég borgaði á staðnum og hann geymdi bílinn til vors.“

Sem fyrr segir þá hófst Sibbi handa við að gera bílinn upp vorið 2005. „Þá byrjaði ég á að koma honum í gang en vélin var föst. Eftir klukkutíma var vélin farin að mala fínt. Svo var það um miðjan júní sem ég byrjaði fyrir alvöru. Stýrið virkaði ekki og svo voru bremsurnar í ólagi. Ég lagfærði stýrið  og tókst að koma smá bremsum á hann.“

Hvað var erfiðast í þessu ferli?„Ætli það sé ekki að halda sig við verkið. Mini-inn sat á hakanum þann tíma sem ég var að hjálpa vini mínum með annan bíl. Það fór mikil vinna í hann og svo þegar maður er orðinn þreyttur á verkinu setur maður það bara til hliðar og geymir – þetta fer ekkert frá manni,“ segir Sibbi og heldur áfram. „Það er ekki ein skrúfa sem ekki er búið að hreyfa. Stundum þurfti að rífa aftur það sem maður var búinn að setja saman vegna þess að það var annað sem átti að koma áður. Til dæmis þurfti bremsulögnin að koma áður en aftur dregarinn var settur undir, þess vegna þurfti ég að taka dregarann undan til að leggja bremsurörið og setja dregarann aftur á sinn stað svo ég taki dæmi. Svo er bíllinn svo lár að maður verður að vera á hnjánum eða að setja bílinn á lyftu til að vinna við hann.“ 

Fékkstu einhverja hjálp við þetta?„Það hafa allir verið tilbúnir að hjálpa mér við það sem ég hef ekki getað gert einn, eins og að taka vélina úr og setja hana í, flytja skelina í og úr sprautun. Pabbi hjálpaði mér svo að koma framstæðunni á sinn stað (bretti og framstykki) sem er soðið saman en það er ekki verk fyrir einn mann. Og svo allir sem komu að því að koma varahlutum frá Englandi. Það er ekki mikið hægt að fá í bílinn hér heima en það er nánast allt til úti. Til dæmis kom Pétur bróðir með húddið og hann kom með felgurnar í ferðatöskunni frá London“ segir Sibbi. Þeir ku hafa rekið upp stór augu tollverðirnir á Keflavíkurflugvelli sem stöðvuðu Pétur Inga til að spyrja út í innihalds kassans sem hann var að flytja inn í landið og hann tjáði þeim að hann væri með húdd á Austin Mini.

„Þá hef ég farið út sjálfur og alltaf tekið eitthvað með mér heim og svo hefur pósturinn líka fengið að sendast með sumt,“ segir Sibbi. „Svo sprautaði Villi bílinn fyrir mig. Ég er þakklátur öllum sem hafa komið að þessu. Ekki síst Báru sem hristi stundum höfuðið þegar ég rogaðist með pakka með varahlutum um almenningssamgöngukerfið í London sem voru stærri en ferðataskan sem ég var með.“ Í myndasyrpunni hér að neðan má sjá Báru við einn svona „pakka“.

Hvernig var tilfinningin að taka rúntinn á bílnum þegar allt var klárt?„Það var góð tilfinning að fara fyrsta rúntinn með númerum en þetta var nú öðruvísi en í minninguni, bíllinn miklu minni og svo er maður búinn að gleyma að nota innsog og kúplingu en það venst fljótt. Ég er búinn að bíða frá því í nóvember að koma honum á númer, hann var orðinn klár þá en fyrsti rúnturinn var 21. apríl .“

Eru fleiri bílar sem bíða eftir að vera gerðir upp?„Já, það er einn kominn af stað. Það er VW týpa 3, 1973 árgerð, sem ég er að taka fyrir vin minn og svo á ég Volvo Amazon 1965 árgerð og eina VW bjöllu, 1972 árgerð. Þannig að miðað við tímann sem fór í Míní hef ég nóg að gera til áttræðs.“

Að lokum. Nú mátti heyra á sumum skyldmennum þínum að þetta verk yrði aldrei klárað?„Já, þessi skyldmenni sem þú vitnar til eru vanir því að taka hlutina með áhlaupi og skilja því ekki að hlutirnir séu ekki kláraðir STRAX! Eins ég sagði áður þá var bíllinn til í haust og ég beið bara eftir því að það batnaði veðrið. En það hefði verið gaman að setja hann á númer í fyrra en þá voru 60 ár frá því fyrsti Míní bíllin kom á götuna,“ segir Sibbi léttur.

Feykir fékk nokkrar myndir að láni hjá Sibba sem sýna Mini-inn á nokkrum uppgerðarstigum og síðan voru teknar nokkrar ferskar myndir af þeim félögum, Sibba og Mini-inum, í gær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir