Strandveiðin komin á fullt

Frá Skagastrandarhöfn. MYNDIR: SKAGASTRANDARHÖFN FB
Frá Skagastrandarhöfn. MYNDIR: SKAGASTRANDARHÖFN FB

Þann 2. maí hófst strandveiðitímabilið en það gefur smábátaeigendum leyfi til að veiða í 48 daga yfir fjóra mánuði sem gera 12 daga í hverjum mánuði. Síðastliðin tvö ár hefur reyndar veiðin verið stöðvuð í byrjun/miðjan júlí og eru strandveiðimenn alls ekki sáttir við það og segja að stöðva þurfi yfirgang stórútgerðarinnar í að sölsa undir sig veiðiheimildir sem ætlaðar hafa verið til að efla hinar dreifðu byggðir. Strandveiðin byrjaði mjög vel og segir á mbl.is að á fyrsta degi lönduðu 402 strand­veiðisjó­menn 336,4 tonn­um á öllu landinu. Þar af voru 312,6 tonn af þorski, 752 kíló af gull­karfa, 4,4 tonn af ufsa, sam­kvæmt gögn­um sem Fiski­stofa gaf út.

Á Skagaströnd var nóg að gera í sl. viku því þar lönduðu 22 bátar rúmum 70 tonnum í 38 löndunum. Tólf voru á grásleppunni sem lönduð alls 57.653 kg og níu voru á strandveiðunum sem lönduðu rúmum sex tonnum. Aflahæsti báturinn á Skagaströnd var Dagrún HU 121, þriðju vikuna í röð, með rúm 9 tonn í tveimur löndunum. Á Facebook-síðu Skagastrandarhafnar segir að seinni áburðarskipið hafið landað í lok apríl og ber það nafnið Frisian Octa og er 118 metrar á lengd og 16 metrar á breidd. Með því hafi komið 2371 poki eða 1422 tonn af áburði, ekki meira né minna!

Á Króknum lönduðu fimmtán bátar/togarar rúmu 291 tonni í 24 löndunum og var Málmey SK 1 aflahæst með rúm 117 tonn. Af þeim sem lönduðu voru fjórir á grásleppuveiðum sem náðu 18.270 kg á land og sjö á strandveiðunum sem lönduðu 3.703 kg. Fannar SK 11 var aflahæstur, aðra vikuna í röð, af þeim sem voru á grásleppu- og handfæraveiðum. Á vef fisk.is segir að Málmey hafi verið við veiðar á Flugbrautinni og Drangey hafi verið á vestur kantinum við Grímsey.

Ein bátur landaði á Hvammstanga, Steini HU 45, sem var á handfæraveiðum og náði 180 kg á land í einni löndun og einn bátur landaði á Hofsósi, Þorgrímur SK 27, sem var á grásleppuveiðum og landaði 2406 kg í einni löndun. Heildaraflinn á Norðurlandi vestra var því 364.505 kg í 64 löndunum. /sg

- - - - -

Í pappírsútgáfu Feykis má lesa aflafréttir í hverri viku ásamt lista yfir landanir. Hér að neðan má sjá nokkrar ágætar myndir sem birst hafa á Facebook-síðu Skagastrandarhafnar síðustu daga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir