Valdís Valbjörnsdóttir söng til sigurs í Söngkeppni Nemendafélags FNV

Valdís Valbjörnsdóttir flytur sigurlagið. Mynd: Eyvör Pálsdóttir.
Valdís Valbjörnsdóttir flytur sigurlagið. Mynd: Eyvör Pálsdóttir.

Föstudagskvöldið 9. febrúar sl. var söngkeppni Nemendafélags FNV haldin á sal skólans og var mæting ágæt – þétt setinn salurinn. Stofnuð var sérstök hljómsveit, „skólahljómsveit“, til að annast undirleik á kvöldinu, en hana skipuðu: Jóhann Daði Gíslason, Magnús Björn Jóhannsson, Sæþór Már Hinriksson og Silja Rún Friðriksdóttir. Stóð sveitin sig vel og lék við hvern sinn fingur. Alls var boðið upp á níu söngatriði að þessu sinni og voru þau hvert öðru betra, það var því ljóst þegar kom að því að útnefna sigurvegara kvöldsins að dómnefndinni var töluverður vandi á höndum.

Helga Rós Indriðadóttir hafði orð fyrir nefndinni þegar úrslitin voru kunngjörð kom hún einmitt inn á þetta og talaði hún um hversu vel allir keppendurnir hefðu staðið sig og þar með sett dómnefndina í töluverðan vanda við að velja þau þrjú lög sem skildu standa efst að leikslokum. – Þrátt fyrir allt komst dómnefndin þó tiltölulega fljótt að niðurstöðu, enda sat í henni fólk sem hefur víðtæka reynslu af söng og tónleikahaldi hvers konar, en það voru auk Helgu Rósar þau Erna Rut Kristjánsdóttir, Íris Olga Lúðvíksdóttir og Stefán R. Gíslason.

Niðurstaðan varð sem sagt sú að í þriðja sæti lenti Sæþór Már Hinriksson með lagið „Murr – Murr“, í öðru sæti varð Malen Áskelsdóttir með lagið „ If I ain‘t got you“ og í fyrsta sæti varð Valdís Valbjörnsdóttir með lagið „Stone cold“.

Aðrir keppendur sem stigu á stokk og sungu voru:
Atli Dagur Stefánsson, Ingi og Róbert Gunnarssynir, Helga Hjördís Sigurðardóttir, Einar Örn Gunnarsson, Ásbjörn Edgar Waage og  síðastir en ekki sístir á svið voru þeir Eysteinn Ívar Guðbrandsson og Víkingur Ævar Vignisson.

Öll umgjörð og framkvæmd kvöldsins var til fyrirmyndar og áttu kynnar kvöldsins þau Anna Margrét og Jón Gylfi sinn þátt í því – þau stóðu sig með sóma.

/IM

HÉR er hægt að nálgast uppttöku Skottufilm frá Söngkeppninni og myndir hér fyrir neðan tók Eyvör Pálsdóttir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir