20 ára afmæli Ámundakinnar

Hluti þjónustukjarnans á Blönduósi. MYND: ÓAB
Hluti þjónustukjarnans á Blönduósi. MYND: ÓAB

Nú á mánudaginn verða liðin 20 ár frá því að Ámundakinn ehf. var sett á laggirnar. Af því tilefni er gestum og gangandi boðið til veislu í þjónustukjarnanum á Blönduósi á milli kl. 15 og 17 þar sem boðið verður upp á kaffi og tertubita, líkt og Jóhannes Torfason, framkvæmdastjóri Ámundakinnar, komst að orði í samtali við Feyki.

Ámundakinn á meðal annars og rekur þjónustukjarnann á Blönduósi þar sem Kjörbúðin, Lyfja, Vínbúðin og Teni halda m.a. úti starfsemi. Jóhannes tjáði Feyki að í afmælishófinu verði þjónustukjarnanum formlega gefið nafn og mun hann kallast Miðjan.

Í Miðjunni verður við þetta tilefni opnuð veggspjaldasýning þar sem stiklað verður á stóru í sögu Ámundakinnar í máli og myndum og eignir félagsins kynntar.

Í frétt á Húnahorninu segir að Ámundakinn ehf. hafi verið stofnað af tólf aðilum með það markmið að byggja hús fyrir ullarþvottastöð Ístex. Síðan hafi félagið stækkað jafnt og þétt og fjöldi hluthafa rúmlega sjöfaldast. Þá á félagið nú á annan tug fasteigna sem eru leigðar til um 30 leigjenda. Auk þess á Ámundakinn eignarhlut í nokkrum fyrirtækjum á starfsvæði félagsins.

Það yrði fulltrúum og eigendum Ámundakinnar sönn ánægja ef fólk sæi sér fært að mæta og fagna þessum áfanga með þeim og eru allir velkomnir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir