Besti dagur ársins er einmitt í dag og við syngjum...

Hressir strákar ná sér í name að loknum söngnum. MYNDIR: ÓAB
Hressir strákar ná sér í name að loknum söngnum. MYNDIR: ÓAB

Hinn frábæri öskudagur er í dag og ekki laust við að hópar misháværra krakka hafi látið ljós sín skína í arki um bæji landsins. Nefjum var stungið inn í anddyri fyrirtækja og stofnana og í skiptum fyrir söng fékkst nammi eða eitthvað annað fínt.

Ágætlega viðraði á söngspírurnar á Sauðárkróki í morgun, helst að hálkan drægi úr hlaupunum en þegar nálgaðist hádegi mátti sjá marga með úttroðna plast- eða bakpoka, fulla af feng morgunsins.

Venju samkvæmt var Gamli Nói vinsæll til söngs, enda nánast allir sem geta sungið um þann gaur. Hann virðist þá að mestu hættur að keyra bíl og kannski blessunarlega því ekki var hann laginn við það. Nú reynir hann að poppa popp eða fer út að renna. Nói er ekki alveg að meika þetta allt saman. Þá var mikið sungið um litina, Bjarnastaðabeljurnar bauluðu pínu og svo voru fáeinir – of fáir – hópar sem höfðu lært eitthvað nýtt og öðruvísi.

Að venju voru flestir hóparnir sem mættu á Feyki og í Nýprent myndaðir og þó sumir væru of æstir til að staldra við þá náðust myndir af flestum. Í einum stúlknahópnum var ein alveg hissa á athyglinni sem þær fengu í bænum, það vildu bara allir mynda þær. „Það er af því að við erum svo fallegar!“ svaraði þá önnur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir