Fitulagið sennilega lag ársins

Fjölskylda Einars á ferðalagi. MYND AÐSEND
Fjölskylda Einars á ferðalagi. MYND AÐSEND

Nú er það formaður byggðarráðs Skagafjarðar sem gerir upp árið en það er að sjálfsögðu Einar Eðvald Einarsson á Syðra-Skör'ugili. Einar tók við oddvitasæti Framsóknarflokksins í Skagafirði af Stefáni Vagni Stefánssyni í byrjun sumars en Framsókn og Sjálfstæðisflokkur mynduðu meirihluta í nýju sameinuðu sveitarfélagi, Skagafirði, að loknum sveitarstjórnarkosningum.

Hver er maður ársins / hvers vegna? Það eru margir sem koma til greina og líka mörg félagasamtök sem hafa gert góða hluti en ég myndi nefna gamlan læriföður í mjöltum hann Guðna Guðmundsson á Þverlæk á Suðurlandi, en hann hefur safnað ótrúlegu magni af dósum með vegum Suðurlands og innleyst 20 milljónir fyrir þær og gefið íþróttafélögum vegna æfinga barna og unglinga. Þetta sýnir líka og sannar að margt smátt gerir eitt stórt!

Hver var uppgötvun ársins? Ekki gott að segja en þegar árin bætast við fer maður að taka eftir uppfinningum eins og nýjum alzheimerlyfjum sem lofa góðu og virðast vera stórkostleg framför fyrir þá sem þurfa á þeim að halda, sem er frábært.

Hvað var lag ársins? Ætli það sé ekki bara fitulagið sem kemur af öllu vínarbrauðinu sem maður borðar á fundum sveitarfélagsins!

Hvað var broslegast á árinu? Ég get brosað yfir ýmsu þegar horft er til baka, en í upphafi árs átti ég t.d. ekki von á því að fara á körfuboltaleiki eða hvað þá á úrslitaleik í fótbolta kvenna á Evrópumótinu í Amsterdam. Ég get líka nefnt að ég átti alls ekki von á að verða einn af þeim sem færi að draga hjólhýsi um landið….., en svona breytast verkefnin með aldri og nýjum hlutverkum í lífinu.

Hvers er eftirminnilegast frá árinu 2022 – eða best? Hér mætti nefna ýmislegt skemmtilegt sem bæði tengist leik og starfi en ætli fjölskylduferð sem við fórum í tilefni af hálfrar aldar afmælis okkar hjóna til Ítalíu með nokkrum góðum vinum hafi ekki staðið upp úr. Einnig fórum við í góðar hestaferðir og svo var margt skemmtilegt í bæði búskapnum og félagsmálunum sem hægt væri að telja upp.

Varp ársins? Horfi mjög lítið á sjónvarp en hlusta frekar mikið á útvarp og alls konar þætti, enda margt skemmtilegt í boði á þeim vettvangi. Ætli hlaðvarp ársins sé ekki bara það síðasta sem ég hlustaði á og var jólahlaðvarp Héraðsskjalasafns Skagfirðinga, það klikkar ekkert sem kemur frá Héraðsskjalasafninu!

Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? Eru brennur ekki að verða barn síns tíma? Ætli það sé ekki best að taka það sem fara hefði mátt betur á árinu 2022 og endurnýta þá þekkingu sem skapaðist og gera þá hlutina enn þá betur eða allavega öðruvísi á næsta ári þannig að ekki þurfi að brenna neitt!

Hvað viltu sjá gerast árið 2023? Að fleiri virði það að nægjusemi er dyggð og þá með von um að við sem heild förum að nýta betur öll okkar veraldlegu gæði, kaupum minni óþarfa og hættum að hrúga upp allskonar dóti og drasli sem skilur svo ekkert eftir. Einnig væri mjög gott ef mannkynið kæmist á þann stað að vopnuð stríð myndu leggjast af og valdagræðgi í heiminum yrði minni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir