Það er eins og almáttugur eigi endalausar birgðir þokuskýja

Farið yfir málin. Frávinstri Egill og Bjarni á Hvalnesi, Friggi Steins í Hvammi, Steini á Hrauni og Þorgerður Betína Friðriksdóttir. MYNDIR: GUNNAR RÖGNVALDSSON
Farið yfir málin. Frávinstri Egill og Bjarni á Hvalnesi, Friggi Steins í Hvammi, Steini á Hrauni og Þorgerður Betína Friðriksdóttir. MYNDIR: GUNNAR RÖGNVALDSSON

Um liðna helgi voru víða aðal smölunar og réttardagar haustsins. Skaginn austanverður skiptist í nokkur gangasvæði og var Hafragilsfjallið og Sandfellið smalað í blíðviðri á föstudaginn, en þar er féð rekið framfyrir Þverárfjallsveginn og í veg fyrir Enghlíðinga enda að lang mestu leiti kindur þaðan. Almennur gangnadagur var síðan áætlaður á laugardaginn en þann dag varð tæplega sauðljóst vegna þoku og hreifði sig ekki nokkur maður nema flokkur mikill sem gekk Tindastólinn undir styrkri stjórn Friðriks Steinssonar.

Fé sem þar smalaðist var síðan réttað á Sævarlandi á sunnudagsmorguninn. Var beðið í von um að birti upp um hádegi þann daginn en ljóst var að helgin væri að mestu farin í súginn þegar enn þyngdi að.

   Fyrr má nú aldeilis fresta gangnadegi,
   en færa hann í aðra viku og nýja.
   Því það er eins og almáttugur eigi
   endalausar birgðir þokuskýja.

Var fjallskilastjórinn, Steinn bóndi á Hrauni, í sífelldum samskiptum við aðra gangnaforingja um framhaldið en víða treysta bændur á aðstoð um helgar svo einsýnt var að mun færri smalar yrðu tiltækir ef reynt yrði að fara fyrsta birtudag.

Mánudagsmorgunn var létt í lofti og ákveðið að fara í Út og Mið -heiðina og samhliða ætluðu Húnvetningar að smala þó fáliðaðir væru. Það hefur lengi verið til siðs á Skaganum að bændur smala sín heimalönd fyrir göngur, bæði vegna slátrunar og eins liggur beinna við að ná fé af ystu bæjum heim en reka það langar leiðir til réttar þvert gegn vilja sínum. Smölum gekk því vel og lauk réttarstörfum í Selnesrétt vel fyrir myrkur.

   Hann bauð að lokum birtu og yl
   og blés svo þoku af vegi.
   Er gerði öll sín gangnaskil
   Guð á mánudegi.

Í fljótu bragði eru dilkar heldur fallegir á að líta þó erfitt sé að spá um hvernig þeir muni skerast.

Hvað sem öðru líður er það ákveðin lífsfylling að taka þátt í þessum hauststörfum sem vissulega hafa breyst á liðnum árum með talstöðvum, fjórhjólum, símum og betri skjólfatnaði. Samt sem áður er það þessi tilfinning að fara um og læra á landið, styðjast við sömu örnefni og forfeðurnir gerðu, koma á gamlar seltóftir og velta upp sögunni, jú og gera kannski eitthvert gagn um leið sem dregur svo marga upp á heiðar og inn til dala þegar haustar að.

- - - - - 

Myndir og texti: Gunnar Rögnvaldsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir