Hátt í 50 manns hlýddu á hamingjufyrirlestur

Frá fyrirlestrinum í gærkvöldi. Mynd: Sigríður Svavarsdóttir.
Frá fyrirlestrinum í gærkvöldi. Mynd: Sigríður Svavarsdóttir.

Í gærkvöldi stóð Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar fyrir fyrirlestri um hamingju í lífi og starfi. „Kvöldið var afar vel heppnað og það mættu um 50 manns til að hlusta á fyrirlestur Önnu Lóu um hamingju í lífi og starfi,“ sagði Aðalheiður Reynisdóttir, meðlimur í klúbbnum, í samtali við Feyki. „Við í Soroptimistaklúbbnum erum afar ánægðar með þessi viðbrögð og vonumst til þess að geta gert þetta jafnvel að árlegum viðburði, þ.e að bjóða upp á fyrirlestur um málefni sem stuðlar að bættum samskiptum og aukinni vellíðan hjá okkur í þessu samfélagi.“

Í fyrirlestrinum talaði Anna Lóa um hamingjuna og hvað það væri sem einkenndi hamingjusamt fólk. Hún lagði mikla áherslu á að ein af undirstöðum hamingjunnar væri gott sjálfstraust, sjálfsþekking og tilfinningin um að stýra eigin lífi, það væri mjög mikilvægur þáttur og jafn mikilvægt að þekkja aðferðir til að byggja sjálfan sig upp eins og að kunna skyndihjálp og geta hjálpað öðrum í neyð.

„Þegar við erum með gott sjálfstraust og upplifum að við höfum stjórn á eigin lífi þar sem við treystum okkur til að takast á við hin ýmsu verkefni lífsins, hefur það áhrif á svo margt annað. Það hefur áhrif á samskipti okkar, viðhorf, atferli okkar og líðan og svo margt fleira,“ útskýrði Aðalheiður og sagðist afar ánægð með fyrirlestur Önnu Lóu og mætinguna á hann.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir