HÚNAVAKA : „Það verður ekki auðvelt að velja“

Maríanna í sól og sumaryl. AÐSEND MYND
Maríanna í sól og sumaryl. AÐSEND MYND

Nú er það Maríanna Þorgrímsdóttir sem rabbar við Feyki um Húnavöku. „Ég bý á Holti á Ásum og þessa dagana er ég nú bara í sumarfríi,“ segir hún þegar spurt er um heimilisfang og stöðu. „Ég ætla að steikja vöfflur að Sunnubraut 4 í Vilkó Vöfluröltinu á föstudaginn, annað er svo sem ekki ákveðið en það er svo margt í boði í ár að það verður ekki auðvelt að velja.“

Ef Húnavaka væri hnallþóra, hvernig væri hún og hvað gerði hana spes? Hún væri marglaga rjómaterta með blönduðum ávöxtum og jarðaberjum, og það sem gerir hana spes eru að botnarnir eru röndóttir.

Hvenær var eftirminnilegasta Húnavakan? Ef ég hugsa um síðustu ár þá 2015, þá kom maðurinn minn óvænt heim vegna þess að skipið sem hann var á strandaði við Grundarfjörð (enginn slasaðist) en við skeltum okkur á Pallaball í félagsheimilinu.

Hvernig lýsir þú Húnavöku í fimm orðum? Fjölskylda, vinir, gleði, gaman og góður matur.

Eiitthvað að lokum? Þegar ég var unglingur var Húnavaka í apríl og þá fór ég með skólabílnum (ég var í Húnavallaskóla) á Blönduós og fór í bíó og þá sá maður kannski tvær til þrjár bíómyndir á hverjum degi. Það var eitthvað sem maður var búinn að hlakka til að gera í langan tíma. Já, og svo voru auðvitað unglingaböllin, vá hvað það var geggjað!

Já, það verður um nóg að velja í dagskrá Húnavöku; allt fullt af fjöri og tónlist og á laugardagskvöldinu má enginn missa af brekkusöngnum með Sverri Bergmanni og Halldóri Gunnari og stórdansleikinn með Sveitamönnum þar á eftir – svona svo eitthvað sé nefnt.

Hægt er að fletta dagskránni hér en hana er einnig að finna í Sjónhorninu.

Fleiri fréttir