Nauðsynlegt að breyta til frá þrasinu í Reykjavík

Kærleikstré eldri borgara. Myndir: FE.
Kærleikstré eldri borgara. Myndir: FE.

Orofsdvöl eldri borgara á Löngumýri er síður en svo nýtt fyrirbæri og á sér sögu alveg aftur á áttunda áratug síðustu aldar. Á  henni hafa þó orðið hlé, ýmissa orsaka vegna, og dagskráin hefur tekið breytingum í tímans rás eins og gengur og gerist. Það eru þær Þórey Dögg Jónsdóttir og Anna Hulda Júlíusdóttir sem bera hitann og þungann af dagskránni að ógleymdum Gunnari Rögnvaldssyni, staðarhaldara á Löngumýri. Gunnar segir að alltaf sé jafngaman að taka á móti hópum sem þessum og þeir fylli húsið af góðum anda sem orni honum allt árið. Í sumar koma fimm hópar í heimsókn og dvelur hver hópur fimm til sex nætur. Þessa vikuna er meðalaldurinn í hópnum ekki nema 79 ár sem er mjög ungt, hann hefur farið allt upp í 86 ár.

Þórey Dögg hefur haft umsjón með orlofsdvölinni undanfarin ár en hún er framkvæmdastjóri Eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastdæma. Hún segir að á Löngumýri sé umhverfi og aðgengi einstaklega gott og svo sé Gunnar stór hluti af aðdráttarafli staðarins. Það sé ómetanlegt fyrir fólk að hafa kost á að komast á stað sem þennan, margir séu einangraðir heima hjá sér en þarna gefist kostur á að brjóta upp hversdaginn í því heimilislega og notalega umhverfi sem sé á Löngumýri.

Þegar mig ber að garði er að hefjast helgistund í kapellunni þar sem beðið er fyrir verkefnum dagsins og farið í gegnum dagskrána sem fyrir liggur. Að henni lokinni tekur við morgunganga og svo leikir og sprell, meðal annars skella nokkrar konur sér í að húlla og tekst sumum snilldarvel til. Svo tekur við grillpartý í hádeginu. Um kvöldið verður svo hátíðarkvöldverður og kvöldvaka. Á kvöldvöku koma fram ýmsir skemmtikraftar úr nágrenninu, má þar nefna Jón harmonikkuleikara í Miðhúsum, Sigvalda, son Gunnars og hina níu ára Matthildi á Flugumýri sem bræðir hjörtu gestanna. Ekki má svo gleyma sonum Önnu Huldu, tvíburunum 14 ára Júlíusi og Tryggva, sem dvelja þar með mömmu sinni og aðstoða við hvað sem til fellur, m.a. að syngja  og spila á kvöldvökunum.

Ég tók nokkra gestanna tali og bar þeim öllum saman um hve það væri mikls virði að eiga kost á að fara þessar ferðir. Guðný Erla Jónsdóttir sagðist vera að koma í tíunda skiptið. „Hér er alltaf jafn gott að koma, allir svo indælir, maturinn góður og allt gert fyrir mann,“ sagði hún. Í fyrstu skiptin kom hún með mágkonu sinni sem á ekki heimangengt lengur svo nú kemur hún bara ein. Á bekk við hliðina á mér sat teinrétt og spræk kona, Auður Magnúsdóttir,  sem við nánari eftirgrenslan sagðist vera 93 ára gömul og búa ein í sinni íbúð í Reykjavík. Hún sagði að það væri alveg nauðsynlegt að breyta til frá þrasinu í Reykjavík, það væri svo gott og mikil frelsun að komast í sveitina. Hér væru allir svo ánægðir með sitt og fólkið duglegt.

Þegar ég kveð Löngumýri fylgja mér hlátrasköll og glaumur kátra gesta sem greinilegt er að njóta til fullnustu þessa indæla staðar og fólksins sem þar starfar.    /FE

Áður birt í 27. tbl. Feykis

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir