Skólastjórinn hljóp í skarðið

Skólastjórinn í hlutverki konungs. MYNDIR: GG
Skólastjórinn í hlutverki konungs. MYNDIR: GG

Árshátíð yngsta- og miðstigs Varmahlíðarskóla var haldin í Menningarhúsinu Miðgarði fimmtudaginn 21. mars síðastliðinn þar sem börnin sýndu fyrir fullum sal og stóðu sig öll með stakri prýði. Það hefur svo sannarlega sýnt sig og sannað hvað það er mikils virði að byrja strax að þjálfa börn í að koma fram í sýningum sem þessum. Sem skilar sér svo í glæsilegum sýningum í eldri bekkjunum og jafnvel alla leið í framhaldsskólann.

Þar sem 1.-4. bekkur sýndi „Úlfa ævintýranna“ var stiklað á stóru í ævintýrum á borð við Rauðhettu og úlfinn og Grísina þrjá. Yngstu nemendurnir léku meðal annars sauðkindahóp í ævintýrinu Úlfur úlfur, sem er vissulega ekki ævintýrið um þá Helga Sæmund og Arnar Frey heldur smaladrenginn sem kallar ítrekað - úlfur úlfur - þangað til fólk hætti að trúa honum og hann lendir í vandræðum.

Að þessari úlfaævintýra-samsuðu lokinni tók við leikritið Vakað á jólanótt sem 5. bekkur sýndi. Alltaf er jafn gaman að sjá hvað krakkarnir, niður í fyrsta bekk, þjálfast í að koma fram og hvað það verður þeim eðlilegt að stíga á svið og syngja, dansa og leika á alsoddi. Meðan 6.-7. bekkur græjaði nýja leikmynd á svið var gestum boðið upp á kaffi og kanilsnúða í hléi. Krakkarnir sýndu Ævintýrakistuna þar sem sögumenn komu upp úr stórri kistu og búið var að sjóða saman Grimms-ævintýrin um Brimaborgarsöngvarana, Stígvélaða köttinn og Gullgæsina.

Ófyrirséðar aðstæður

Þegar hér var komið sögu, eins og gengur og gerist á þessum árstíma, þá eru óviðráðanlegar aðstæður eins og veikindi og vont veður sem ekki fæst ráðið við og þá verða oft góð ráð dýr. Forföll eins sögumanns varð til þess að hinir sögumennirnir tveir komu saman upp úr kistunni og tilkynntu áhorfendum að þeir væru sögumenn í afleysingum og lásu söguna saman og leystu þetta óvænta hlutverk með stakri prýði.

Í ævintýrinu um Stígvélaða köttinn koma fyrir kóngur og prinsessa, eins og flestir vita sem söguna hafa lesið, en það vakti óskipta athygli og mátti greina hlátur í salnum þegar skólastjóri Varmahlíðarskóla, Trostan Agnarsson, birtist á sviðinu í hlutverk konungsins. Það var vegna óvæntra forfalla. Frábær lausn við ófyrirséðum aðstæðum og frábært dæmi um að deyja ekki ráðalaus, gera gott úr hlutunum og biðja skólastjórann að bregða sér í hlutverk konungs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir