Folaldakjöt og fleira gott

Magnús og Kristín ásamt Lilju Karen. AÐSEND MYND
Magnús og Kristín ásamt Lilju Karen. AÐSEND MYND

Matgæðingar í tbl 14, 2021, voru Magnús Sigurjónsson og Kristín Birgisdóttir í Syðri-Brekku í Austur-Húnavatnssýslu. Magnús er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði og hefur lengst af starfað við kennslu en vinnur nú á skrifstofu Blönduósbæjar ásamt því að sinna bústörfum. Kristín er uppalin á Kornsá í Vatnsdal og er leikskólakennari og starfar á Leikskólanum Barnabæ á Blönduósi. Dóttir þeirra heitir Lilja Karen og er á öðru aldursári. Hér fyrir neðan má finna eitthvað gómsætt sem hefur verið mallað í eldhúsinu í Syðri-Brekku.

FORRÉTTUR
Lambafille með pestósósu
    Lambafille
    klettasalat
    furuhnetur
    parmesanostur

Sósa:
    2 msk. grænt pestó
    ½ dl hvítvín
    1 dl kjúklingasoð
    1 dl rjómi

Aðferð: Byrjið á því að krydda lambafilleið og steikið eða grillið (magn eftir fjölda). Setjið smá klettasalat á forréttardisk, þrjár til fjórar þunnar sneiðar af lambafille ofan á saltatið, pestosósu yfir eða meðfram og stráið nokkrum þurrristuðum furuhnetum og parmesanosti yfir.

AÐALRÉTTUR
Folaldakjöt í Caj legi
með kartöflum, avacadosalati og sósu

    Folaldakjöt (t.d lund eða fille)
    Caj grillolía (BBQ og hvítlauks)
    Pepper Mix krydd

Meðlæti: Kartöflur, avacado, fetaostur, litlir tómatar, brauðteningar, piparostur og rjómi.

Aðferð: Snyrtið kjötið og setjið í lög (Caj grillolían blanda saman BBQ og hvítlauks) og kryddið með PepperMix eða einhverju góðu sem er til í skápnum. Fínt að láta liggja vel og lengi. Kjötið má grilla eða setjið á pönnu, loka á og inn í ofn. Gott er að skera venjulegar kartöflur frekar þunnt og setja þær í ofnskúffu hella yfir þær olíu og strá kartöflukryddi. Avacadosalatið er ferskt og gott en ásamt avacadionu setjum við tómata (litla), brauðteninga og fetaost. Klassísk sósa er piparostasósan góða. 

EFTIRRÉTTUR
Pönnukökur með ís og marengs


    1 dl hveiti
    4 egg
    100 g brætt smjör
    3 ½ -4 dl mjólk
    ¼ tsk. vanilludropar
    2 dl sykur
    2 eggjahvítur
    ís
    jarðarber
    bláber
    Mars
    rjómi

Aðferð: Hrærið saman hveiti, eggjum smjöri, mjólk og vanilludropum og búið til pönnukökur, þær eru frekar þunnar (má bæta við hveiti). Þegar þú ert búinn að baka og þær orðnar kaldar setur þú ís ofan á pönnukökuna og pakkar ísnum inn í pönnukökuna og setur í frysti. Það er fínt að gera þetta deginum áður. Áður en eftirrétturinn er borinn fram þeytir þú eggjahvítur og sykur og setur marengsinn ofan á pönnukökuna og setur inn í ofn á grill. Marengsinn verður dökkur en passaðu að ísinn verði ekki of linur. Að lokum setur þú jarðarber og bláber og Mars-sósu (bræðir Mars í potti og bætir við rjóma).

Verði ykkur að góðu!

Magnús og Kristín skoruðu á Kristínu Ingibjörgu Lárusdóttur að taka við keflinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir