Matgæðingur vikunnar - kjúklingabringur og banana - döðlubrauð

Matgæðingurinn í fyrsta tbl. ársins er Erna María Jensdóttir, frá Gili í Skagafirði, sem býr ásamt eiginmanni sínum og þrem börnum í Keflavík.
Erna er önnum kafin þessa dagana því hún er á lokametrunum í mastersnámi í Nýsköpun og viðskiptaþróun við Háskóla Íslands.

Erna endaði svo eitt skólaverkefnið sitt á því að ráða sig til starfa hjá vaxandi sportafyrirtæki á Suðurnesjunum, Geosilica og hefur því eldamennskan fengið minni tíma hjá henni. Erna var hins vegar svo heppin að eignast, í sumar, hinn vinsæla Airfryer og hefur hann hjálpað mikið til við matreiðslu heimilisins og mælir hún með því að prufa að steikja kjúklinginn í meðfylgjandi uppskrift í slíkum potti fyrir þá sem eiga.

AÐALRÉTTUR
Fylltar kjúklingabringur
með sveppasósu

    4 kjúklingabringur (vasi skorinn í hverja bringu)
    kjúklingakrydd eftir smekk

Fylling:
    1-2 hvítlauksgeirar
    ½ poki ferskt spínat
    100 g ricottaostur eða rjómaostur
    5-6 msk. saxað ferskt basil
    ½ msk. rifinn börkur af sítrónu
    2 msk. kúskús (eldað)
    2 msk. brauðmylsna

Aðferð: Steikið hvítlaukinn við vægan hita þar til hann fer að mýkjast, bætið þá spínatinu á pönnuna og steikið áfram á vægum hita í nokkrar mínútur. Restinni er svo bætt við og hrært vel saman og smakkað til með salti og pipar. Því næst er fyllingin sett í vasana sem síðan er lokað með nokkrum tannstönglum. Bringurnar eru steiktar í 2-3 mínútur. á hvorri hlið áður en þær eru eldaðar í ofni við um 180°C í u.þ.b. 20 mínútur.

Sveppasósa:
    250 g ferskir sveppir
    1 tsk. kjúklingakrydd
    1-2 dl matreiðslurjómi
    kjúklingasoð (1/2 -1 teningur)
    sósujafnari

Aðferð: Sveppirnir eru steiktir upp úr smjöri þar til þeir hafa náð góðum lit, restinni er síðan bætt út í og látið sjóða við vægan hita í u.þ.b. 10 mínútur. Gott að bera fram með fersku salati og steiktu rótargrænmeti. 

EFTIRRÉTTUR
Banana-döðlubrauð í hollari kantinum
    1 bolli hveiti
    1 bolli haframjöl
    2 tsk. lyftiduft
    1 tsk. matarsódi
    ¼ tsk. salt
    1-1½ tsk. kanill
    2-3 vel þroskaðir bananar (og vel stappaðir)
    1 egg
    8 fínt saxaðar döðlur u.þ.b.
    1/2-1 dl mjólk (fer eftir magninu af bönununum)

Aðferð: Blandið þurrefnum saman í skál. Bætið bönunum, eggi og döðlum saman við. Hrærið varlega saman og setjið í eitt stórt brauðform, eða tvö minni. Munið að smyrja formin áður eða notið bökunarpappír. Bakið í ofni við 180-200°C í u.þ.b. 40 mínútur.

Verði ykkur að góðu!

Erna María skorar á frænku sína, Söndru Gestsdóttur, að taka við matgæðingaþættinum. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir