Grænmetisréttir og sælgæti fyrir heimilishundinn

Matgæðingarnir Kristján og Angela. Aðsendar myndir.
Matgæðingarnir Kristján og Angela. Aðsendar myndir.

Kristján Birgisson og Angela Berthold voru matgæðingar vikunnar í 48. tbl. 2017. Þau hafa búið í Lækjardal síðan 1996 og finnst frábært að búa í sveitinni þó þau stundi ekki hefðbundinn búskap. Þau vinna bæði á Blönduósi en eiga sína reiðhesta og tvo hunda. „Mig langar að koma með tvær uppskriftir að grænmetisréttum, kannski eru fleiri sem vilja breyta aðeins til eftir hátíðirnar og sleppa kjötinu af og til,“ segir Angela. „Ég borða sjálf mikið af grænmeti en Kristján vill ekkert endilega láta bendla sig við svoleiðis. Fyrsta uppskriftin er af Falafel sem kemur frá Miðausturlöndunum og er borðað sem einskonar skyndifæði þar, sett inn í pítubrauð með salati, tómötum, jógúrt- og tahínsósu.“

RÉTTUR 1
Falafel

1 poki af þurrkuðum kjúklingabaunum. Baunirnar lagðar í bleyti í sólarhring, þær rúmlega tvöfaldast að stærð og eru notaðar ósoðnar í þennan rétt. Látið vatnið renna af þeim.

Falafel.


4 bollar af þessum baunum (afganginn má frysta eða sjóða og nota í annað)
1 laukur
2 hvítlauksgeirar
½-1 chillipipar (farið varlega, síðasti sem ég keypti var „on fire“) eða notið chilliduft, ½ tsk.
1-2 tsk. tandoori-krydd
½-1 tsk. mulinn coriander
½ tsk. pipar
1-2 tsk. salt (smakkið til þegar deigið er tilbúið, þarf e.t.v. meira)
2 msk. hveiti eða annað mjöl
u.þ.b. 1 lúka steinselja, (er í frumuppskriftinni en þar sem þetta fæst ekki alltaf sleppi ég henni)

Aðferð:
Allt sett í matvinnsluvél, í tvennu lagi þar sem þetta er stór uppskrift. Vélin látin ganga nokkuð lengi, stundum þarf að stoppa og skafa aðeins frá hliðunum. Deigið virkar mjög laust í sér, áferðin á að vera svipuð og grófur blautur sandur. Setjið í skál og geymið í ísskáp í a.m.k. klukkutíma en má líka geyma til næsta dags. Ef deigið tollir alls ekki saman þegar maður klípur í það þarf annaðhvort að setja það í blandarann aftur eða bæta smá hveiti við.
Venjulega eru mótaðar litlar kúlur sem eru síðan djúpsteiktar en mér finnst eiginlega betra að gera litla klatta og steikja á pönnu við meðalhita í nokkrar mínútur á báðum hliðum.

RÉTTUR 2
Grænmetiskarrí

Í þennan rétt má nota alls konar grænmeti, ágætt ef maður hefur keypt of mikið og eitthvað af því er orðið dálitið „þreytt“.

Grænmetiskarrí.

1 rauðlaukur
1 sæt kartafla, u.þ.b. 500 g
1 rauð paprika
blómkál, spergilkál, gulrætur eða annað eftir smekk
1 hvítlauksgeiri
½-1 púrrulaukur
200 ml kókosmjólk
olía, turmerik, karrýduft, grænmetiskraftur, salt og pipar, allt eftir smekk.

Aðferð:
Skerið allt grænmeti í teninga/bita. Hitið olíu í stórum potti, byrjið á að steikja laukinn í smá stund og bætið svo kryddinu, öllu grænmetinu og u.þ.b. hálfum bolla af vatni við. Látið malla í 15 mínútur, það þarf að hræra af og til þar sem vökvinn er aðeins á botninum. Bæta svo kókosmjólkinni við og e.t.v. meira kryddi. Blandið vel og látið sjóða áfram í 10-15 mínútur í viðbót, það fer eftir því hvort maður vill hafa grænmetið mjúkt eða stökkt.
Sem meðlæti passa hrísgrjón og/eða brauð. 

RÉTTUR 3
Hundakex

Að lokum langar mig að koma með uppskrift sem gleður bestu vinina á heimilinu:

Hundakex.

200 g soðin lifur
100 g smjörlíki
1 egg
3 msk. haframjöl
100 g hveiti eða annað mjöl

Aðferð: Setjið lifrina í matvinnsluvél og hakkið mjög smátt. Bætið smjörlíkinu, egginu og haframjölinu við og blandið vel saman. Færið svo yfir í skál, þetta er mjög klístrað. Hnoðið svo hveitinu saman við og geymið í ísskáp í klukkutíma. Núna er hægt að fletja deigið út, skera út fígurur með smákökuformi, eða móta bara litlar kökur, setja á bökunarpappír á ofnplötu og baka í 15 mínútur við 175°. Slökkvið svo á hitanum en látið blásturinn ganga við hálfopna hurð þannig að kökurnar þorni vel.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir