Grískur matarþáttur

Rakel Sunna. MYND:AÐSEND
Rakel Sunna. MYND:AÐSEND

Matgæðingur í tbl 44, 2020 var Rakel Sunna Pétursdóttir. Hún er ættuð úr Vestur-Húnavatnssýslu, nánar tiltekið Þórukoti í Víðidal. Rakel Sunna býr núna í Reykjavík með kærastanum sínum og litla bróður en þar stundar hún nám við snyrtifræðibraut Fjölbrautaskóla Breiðholts.

„Mér hefur alltaf fundist gaman að elda og baka og hef ég unnið mikið með kokkum og þjónum. Ég og kærasti minn (Jóhann Bragi) bjuggum úti í Grikklandi í fyrra vegna skiptináms og lærði ég mikið inn í gríska matargerð og mun ég deila smá af því hér.“ Rakel gefur okkur þrjár uppskriftir, grískt salat sem Grikkir borða með nánast öllum mat. Rakel finnst tilvalið að bera salatið framm með flatbrauði (grísku pítubrauði), Tzatziki dressingu og kjúklingaspjótum og það má alveg stækka og minnka uppskriftina eftir hentisemi. Svo er það Pretzels eða kringlur eins og við myndum kalla þær og svo besta súkkulaðikakan, súkkulaðikaka ala Rakel.  

UPPSKRIFT 1
Grískt salat
1 græn paprika
1 rauð papríka (það skiptir ekki máli hvaða tegund papriku er notað)
1 gúrka (það er val um að skræla)
10 tómatar
1-2 laukar (það er líka val hvort notað er rauð- eða hvítur laukur)
1 bolli ólífur með steini
1 fetakubbur
pínu salt og pipar
u.þ.b. 1 msk. oregano

Aðferð: Allt skorið í frekar stóra og grófa bita. Fetaostur er einn vinsælasti osturinn úti og er hann allt öðruvísi en þessi sem við fáum hér heima. Fetakubburinn er því líkastur þeim osti og verður hann að vera alveg hreinn. Mikilvægasta skrefið er dass af oregano.

UPPSKRIFT 2
Pretzels
360 ml volgt vatn
2 ¼ tsk. þurrger
1 msk. brætt smjör
1 msk. púðursykur
500 g hveiti
1 tsk. salt

Aðferð: Volgt vatn og þurrger hrært saman og látið standa í 2-3 mínútur. Síðan er bræddu smjöri og púðursykrinum bætt saman við. Þetta er síðan sett saman í hrærivélaskál og hrært smá saman ásamt hveiti og salti. Þegar deigið er tilbúið er það skorið í jafna bita og rúllað út í Pretzels form. Pretzelin sett eitt í einu ofan í sjóðandi matarsótabað í um 20 sek. Það er áríðandi að passa að það sé ekki meira en 20 sek. því annars kemur mjög mikið járnbragð af
Pretzelinu.

Pretzel baðið:
2200 ml vatn
120 g matarsóti
1 egg
gróft salt

Aðferð: Eggið og saltið notað til að pensla og strá yfir þegar Pretzelstykkin eru búin í baðinu. Þau fara svo á pappírsklædda ofnplötu og inn í ofn á 200°C í
12–15 mínútur eða þar til þau eru orðin gullinbrún.

UPPSKRIFT 3

Svo ef þið elskið súkkulaðikökur þá er þetta besta súkkulaðikakan!

Súkkulaðikaka ala Rakel Sunna

2 ½ dl hveiti
2 dl sykur

½ tsk. matarsódi

½ tsk. lyftiduft

hnífsoddur til hálf tsk. af salti

1 egg

1 ½ dl mjólk

¾ dl matarolía

1 tsk. vanilludropar

2 ½ msk. kakó

Aðferð: Hræra þessu öllu saman, setja inn í ofn á 180°C í 15-20 mínútur.

Karamellu / súkkulaði rjómaostakrem.

400 g smjör

200 g rjómaostur

600 g flórsykur

100 g kakó (má sleppa og setja heimagerða karmellusósu)

2 tsk. vanilludropar

1 dl sterkt kaffi við stofuhita (má sleppa, og mæli ég með að sleppa ef það á að sleppa kakóinu)

Heimagerð saltkaramella

200 g sykur

100 g smjör

1 dl rjómi

1 tsk. salt

Annað :  Það er mjög gott að setja á milli laganna heimatilbúna saltkarmellu og hindberjasultu ef ykkur langar að prófa eitthvað nýtt. Gott er að búa til saltkaramelluna deginum áður.

Verði ykkur að góðu!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir