Kjúklingur í pestósósu og letingjabrauð

Atli Þór og Kolbrún ásamt dætrunum þremur; Þórdísi Kötu 13 ára, Írisi Björgu 9 ára og Hrafntinnu Rún 7 ára. MYND: RAKEL ÓSK SIGURÐARDÓTTIR
Atli Þór og Kolbrún ásamt dætrunum þremur; Þórdísi Kötu 13 ára, Írisi Björgu 9 ára og Hrafntinnu Rún 7 ára. MYND: RAKEL ÓSK SIGURÐARDÓTTIR

Það eru Kolbrún Ágústa Guðnadóttir og Atli Þór Gunnarsson sem voru matgæðingar vikunnar í tbl 44, 2022. Kolbrún er úr Reykjavík og Atli er frá Kirkjubæjarklaustri en þau fluttu að Mánaskál í Laxárdal árið 2011 en keyptu síðar jörðina Sturluhól og hafa látið fara vel um sig þar undanfarin ár. Þau eiga því í raun tvö heimili, í Skagabyggð og Húnabyggð þó að stutt sé á milli bæja.

Það var æskudraumur Kolbrúnar að búa í sveit og rættist hann í raun fyrir tilviljun þegar þau fluttu norður því upphaflega stóð ekki til að eiga fasta búsetu hér en svona er lífið óútreiknanlegt. „Atli er rafeindavirki og hefur lengst af starfað í tengslum við flugvélabúnað. Hann sinnir slíkum störfum í fjarvinnu og með ferðalögum erlendis. Hann starfar einnig við smíðar hér á svæðinu og nýtir auk þess allan lausan tíma til að bæta og byggja upp í kringum okkur. Eitt af því fyrsta sem hann gerði hér var t.d. að virkja bæjarlækinn og setja upp heimarafstöð á Mánaskál,“ segir Kolbrún. Kolbrún er viðskiptafræðingur og starfar hjá Vinnumálastofnun á Skagaströnd. Mitt aðaláhugamál hefur alla tíð verið hestamennska og eins og flestir vita er það áhugamál sem frekar eykst með tímanum en hitt. Hestamennskan og hrossarækt er því stór þáttur af okkar lífi. Þrátt fyrir að Atli deili ekki endilega ástríðunni fyrir hestamennskunni þá tekur hann fullan þátt í ævintýrinu og öllu sem því fylgir. „Ég myndi segja að Atli sé meiri kokkur en ég, hann hefur a.m.k. oftar frumkvæði að því að elda eitthvað gott. Ég get þó alveg galdrað fram góðar máltíðir og ég ætla að deila einni af mínum uppáhalds en það er einföld kjúklinga uppskrift sem hefur aldrei klikkað,“ segir Kolbrún.  

RÉTTUR 1
Kjúklingur í pestósósu

    4 kjúklingabringur
    2 krukkur af rauðu pestói
    rjómaostur – nokkrar skeiðar
    rjómi eða matreiðslurjómi

Aðferð: Rautt pestó er látið þekja botninn á eldföstu móti. Ég hef keypt frekar litlar krukkur og nota allt að því tvær í einn rétt. Kjúklingabringurnar eru skornar í 3-4 sneiðar og raðað ofan í mótið. Ég krydda svo yfir bringurnar með kjúklingakryddi. Nokkrum skeiðum af rjómaosti er dreift yfir bringurnar. Kjúklingurinn er eldaður í u.þ.b. 40 mín. á 200°C og þá er rjóma eða matreiðslurjóma hellt yfir svo það fljóti yfir kjúklinginn. Það er ágætt að hræra nokkrum sinnum upp í rjómanum og pestóinu á meðan kjúklingurinn mallar. Rétturinn er tilbúinn u.þ.b. 20 mín. síðar. Með þessu ber ég fram hrísgrjón og ferskt salat. Seinni uppskriftin sem ég ætla að deila er af kryddbrauði sem kallast því lýsandi nafni letingjabrauð þar sem það er víst svo einfalt að það hentar fyrir þá allra lötustu í bakstri. Ég get lofað að letingjabrauðið slær í gegn sem nesti í hvaða hestaferð sem er.

RÉTTUR 2
Letingjabrauð

    5 dl haframjöl
    5 dl hveiti
    4 dl sykur (má minnka)
    3 tsk. matarsódi
    ½ tsk. negull
    1 ½ tsk. kanill
    1 ½ tsk. kakó
    4 dl mjólk

Aðferð: Þurrefnum blandað saman og mjólk sett í síðast. Uppskriftin passar í tvö „hefðbundin“ formkökuform. Bakað við 180°C í 45 mín.

Verði ykkur að góðu!

Kolbrún og Atli Þór skoruðu á Elínu Jónu Rósinberg á Hvammstanga að taka við sleifinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir