Lasanja fyrir öll tilefni og uppáhalds ísinn

Eiríkur og Kristín búa til ís. Mynd úr einkaasafni.
Eiríkur og Kristín búa til ís. Mynd úr einkaasafni.

„Okkur finnst mjög gaman að fá gesti í mat en skipuleggjum það sjaldnast með löngum fyrirvara og gerum mjög lítið af því að halda veislur eða fín matarboð. Þegar við fáum matargesti er yfirleitt minni hlutinn af þeim fullorðinn og stundum töluvert margir í einu. Þess vegna eldum við mjög oft lasanja.

Það getur bæði verið spari og hversdags og hentar öllum aldurshópum. Uppskriftin sem kemur upphaflega úr bókinni Ostalyst er einfaldari en „venjuleg“ lasanja uppskrift" því það er kotasæla í stað hvítu sósunnar. Það er líka óvenjulega ljúffengt,“ segja matgæðingarnir Kristín Bjarnadóttir og Eiríkur Frímann Arnarson á Hofsósi sem voru matgæðingar í 8. tölublaði ársins 2016. 

Aðalréttur
Lasanja
(uppskriftin er fyrir 6 – 8):

500 g hakk
½ bolli saxaður laukur
(1 hvítlauksgeiri ef vill)
1 dós tómatpasta (180g)
1½ bolli vatn
1 -2  tsk salt
¾ tsk oregano
¼ tsk pipar 

Lasanjablöð
ein stór dós kotasæla
250 g ostur í sneiðum 

Aðferð:
Brúnið hakkið, bætið lauknum í og látið krauma þar til laukurinn er meyr. Blandið tómatmauki, vatni og kryddi saman við og sjóðið í 30 mínútur.               Setjið í eldfast mót til skiptis í þunnum lögum: Hakk, lasanjablöð, kotasælu og ost. Bakið í ofni við 190°C í 30 mínútur.
Með þessu finnst okkur best að hafa hvítlauksbrauð og salat með papriku, tómötum, fetaosti og ristuðum furuhnetum.

"Það getur alltaf komið sér vel að eiga fínan eftirrétt í frystinum. Við höldum mikið upp á ís sem við sáum í Nýjum eftirlætisréttum fyrir löngu. Um jólin höfum við ísinn alltaf eins og hann er í þessari uppskrift en fyrir þá sem eru t.d. ekki hrifnir af kokteilberjum má setja allt mögulegt annað í staðinn. Gott er að hafa í huga að það er minni sykur í þessum ís en í sumum öðrum uppskriftum. Fyrir krakka er sniðugt að frysta ísblönduna í plastglösum. En þegar við viljum hafa sérstaklega fínan ís fyrir fullorðna gerum við ístertu. Þá setjum við muldar makkarónukökur bleyttar í sherrýi  í botninn á djúpu lausbotna hringformi, þjöppum vel og hellum ísblöndunni ofan á. Svo er hægt að gera tvöfalda uppskrift og frysta í ofnskúffu fyrir fermingarveisluna, setja á fat, leggja marsipan yfir og skreyta eins og hverja aðra fermingartertu."

Eftirréttur
Ísinn

8 eggjarauður
80 g flórsykur
3-4 tsk vanillusykur
1 l rjómi
100 g rauð kokteilber
100 g græn kokteilber
200 g Toblerone súkkulaði 

Aðferð:
Þeytið eggjarauðurnar, sigtið flórsykur og vanillusykur saman við og þeytið áfram mjög vel (því lengur því betra). Þeytið rjómann og blandið honum varlega saman við (það er best að byrja að blanda litlu af rjómanum vel saman við og setja svo smátt og smátt meira). Blandið brytjuðum kokteilberjunum og súkkulaðinu saman við. Það er mikilvægt að frysta ísinn í þéttu lokuðu íláti eða breiða vel yfir.

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir