„Logi Bergmann“ og beikonvafðar bringur

Að sögn Jóhönnu ber þessi mynd titilinn „kiðfætt og gleiðfætt“ og er líklega tekin á toppi Stóra Dímons í júlí 2013. Aðsend mynd.
Að sögn Jóhönnu ber þessi mynd titilinn „kiðfætt og gleiðfætt“ og er líklega tekin á toppi Stóra Dímons í júlí 2013. Aðsend mynd.

Ingvar Guðmundsson og Jóhanna Sveinbjörg Traustadóttir á Hofsósi voru matgæðingar vikunnar í 16. tbl Feykis 2017. Þau buðu upp á grillaðar kjúklingabringur sem eru afar vinsælar á heimili þeirra og í eftirrétt var hin ómissandi Logi Bergmann súkkulaðikaka. 

RÉTTUR 1

Sívinsælar grillaðar kjúklingabringur með beikoni fyrir 6 manns

6-7 kjúklingabringur
2 -3 pakkar beikon 

Aðferð:
Kljúfið kjúklingabringurnar í tvær til þrjár lengjur. Vefjið beikoni um hverja lengju og setjið beint á grillið. Grillið kjúklingabringurnar á góðum hita þar til þær eru fulleldaðar. 

Meðlæti:

2 sætar kartöflur og 2 stórar bökunarkartöflur skornar í litla bita og sett í eldfast mót. Ólífuolíu og grófu salti stráð yfir og bakað við 190°C í 30 mínútur.  

Köld heimatilbúin hvítlaukssósa (nauðsynleg með kjúklingnum).

1 dós grísk jógúrt
2-3 hvítlauksrif, smátt skorin
örlítill pipar
2 dropar agavesíróp

Ferskt salat er ómissandi með öllum mat og er tilvalið að blanda saman káli að eigin vali, tómötum, agúrku, papriku, blaðlauk, fetaosti og furuhnetum. 

RÉTTUR 2

Eftirréttur sem svíkur engan –Logi Bergmann „heit súkkulaðikaka“ fyrir 8-10 manns 

„Uppskriftina að þessari súkkulaðiköku fundum við í uppskriftabók sem unnin er af starfsfólki leikskólans Álfasteins í Hafnarfirði. Heitið á kökunni varð til í saumaklúbbnum Fab-Five þegar hún og önnur gerð af súkkulaðiköku voru bornar saman en einhverra hluta vegna var kökunum þá líkt við heiðurshjónin Svanhildi og Loga sem allir þekkja af sjónvarpsskjánum. Hefur þessi uppskrift verið kölluð Logi Bergmann æ síðan. Við lofum ykkur því, að kakan klikkar ekki. Hér kemur hún:“ 

Botn:

2 dl sykur
200 g smjör
200 g suðusúkkulaði
1 dl hveiti
1 egg 

Aðferð:
Þeytið eggin og sykurinn vel saman. Bræðið smjörið og súkkulaðið við vægan hita í potti. Blandið hveitinu saman við eggin og sykurinn og bætið brædda smjörinu og súkkulaðinu að lokum varlega út í deigið. Bakið í vel smurtu tertuformi (ekki lausbotna) við 170 gráður í 30 mínútur.  

Súkkulaðibráð:

150 g suðusúkkulaði
70 g smjör
2 msk sýróp 

Látið allt saman í pott og bræðið við vægan hita. Kælið og smyrið síðan á kökuna. Kakan á að vera blaut í miðjunni. Gott að bera fram með þeyttum rjóma eða ís.

Verði ykkur að góðu.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir