Matmikil gúllassúpa og Ronjubrauð

Þyrey og Dagur í útlöndum. MYND AÐSEND
Þyrey og Dagur í útlöndum. MYND AÐSEND

Matgæðingar vikunnar í tbl. 6 voru Þyrey Hlífarsdóttir og Dagur Þór Baldvinsson í Víðiholti. Þau eiga þrjú börn, Evu Rún, Hlífar Óla og Baldvin Orra. Þyrey og Dagur eru bæði Skagfirðingar, Þyrey frá Víðiholti og Dagur frá Sauðárkróki. Þyrey er kennari í Varmahlíðarskóla og Dagur er hafnarstjóri Skagafjarðarhafna. Á þeirra heimili er mikið eldað af mat og höfum við gaman af því að halda matarboð og fá fjölskyldu og vini til okkar í mat. „Ef ég myndi segja að við hjónin værum jafn dugleg að elda þá væri það bara alls ekki satt. Við getum orðað það þannig að annað okkar er meira fyrir að elda matinn og hitt gerir meira af því að borða matinn,“ segir Þyrey.

RÉTTUR 1
Matmikil gúllassúpa

    700 g folaldagúllas
    ólífuolía
    1 msk. smjör
    2 l vatn
    1 laukur
    1 stór sæt kartafla
    3 gulrætur
    1 rauð paprika
    1 gul paprika
    4 - 6 tómatar
    1 - 2 hvítlauksrif
    1 dós hakkaðir tómatar
    1 krukka salsasósa
    1 dós kókosmjólk
    1 peli rjómi
    2 nautakjötsteningar
    salt og pipar

Aðferð: Brúnið gúllasið á pönnu, kryddið með salti og pipar. Hellið ½ l af vatni út á pönnuna og látið sjóða þar til vatnið er búið. Geymið kjötið og undirbúið súpugrunninn. Setjið smjör og olíu í pott, saxið grænmetið og svissið í smjörinu í smá stund, kryddið með salti og pipar. Pressið hvítlaukinn út í grænmetið. Hellið vatni út á grænmetið og setjið súputeninga saman við, látið sjóða í 10 - 15 mín. Maukið grænmetið með töfrasprota og bætið hökkuðu tómötunum og salsasósunni út í pottinn. Bætið kjötinu við og leyfið þessu að malla í smá stund, bætið þá kókosmjólkinni og rjómanum út í og hrærið vel í súpunni. Gott er að smakka súpuna til og krydda með salti og pipar eftir þörfum, ef það er kalt úti er mjög gott að bæta smá slettu af sweet chili sósu út í súpuna til að gera hana enn bragðmeiri.

RÉTTUR 2
Ronjubrauð

Þetta brauð er mikið dásamað af öllum þeim sem það hafa smakkað. Það besta við brauðið er hversu fljótlegt og einfalt það er. Auðvelt er að útfæra það á mismunandi vegu með því að bæta við kryddum eftir því sem maður vill. Á sumrin er mjög gott að skella brauðinu beint á grillið eða vefja því á trjágreinar og grilla á eldi.

    2½ bolli hveiti
    1 bolli súrmjólk
    1 tsk. matarsódi
    ½ tsk. lyftiduft
    smá klípa af salti
    ½ dl olía
    2 msk. sýróp

Aðferð: Blandið öllum innihaldsefnunum saman í skál og hrærið saman. Mótið litlar dellur úr deiginu, gott að velta þeim upp úr smá hveiti og raðið á bökunarplötu. Bakið við 200°C í u.þ.b. 12 mín. Njótið vel.

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir