Mexíkanskt lasagna, sósa og salat

Matgæðingarnir Jenný og Arnar. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Jenný og Arnar. Aðsend mynd.

Jenný Þórkatla Magnúsdóttir og  Arnar Svansson voru matgæðingar vikunnar í 18. tbl. Feykis 2017. Þá voru þau nýflutt frá Njarðvík til Hvammstanga ásamt tveimur börnum sínum, öðru í leikskóla og hinu í 5. bekk, og sáu ekki eftir því. Jenný tók við starfi sviðsstjóra á fjölskyldusviði í Húnaþingi vestra, Arnar er stuðningsfulltrúi í grunnskólanum. „Lífið á Hvammstanga hefur verið einstaklega ljúft og erum við búin að koma okkur vel fyrir og höfum við kynnst mörgu frábæru fólki,“ sögðu þau.

„Flestir fjölskyldumeðlimir fá heitan mat í hádeginu, þá er nú oftast eitthvert snarl á kvöldin og njótum við því að elda góðan mat um helgar. Í uppáhaldi hjá okkur öllum er folaldakjöt. Það er yfirleitt bara kryddað og grillað eða sett á pönnu með engri olíu, gott salat og einhverjar skemmtilegar kartöflur hafðar með. Við borðum líka mikið af fersku salati og ristum við helst alltaf einhver fræ út í það. Galdurinn við að gera salatið enn betra er að setja fetaost yfir salatið og hella svo heitum fræjum yfir hann. Okkur langar að deila með ykkur sitt litlu af hverju, einum kjúklingarétti sem er vinsæll hjá okkur, góðu spínatsalati og sósu sem við fáum ekki leið á,“ segja matgæðingarnir Jenný og Arnar.

RÉTTUR 1
Mexíkanskt lasagna

1 stk. rauðlaukur
1 stk .rauð paprika
4 kjúklingabringur
mexikanskt krydd í bréfi
2 krukkur salsasósa
1 dós (400 g) rjómaostur
4 burito vefjur
rifinn ostur

Aðferð:
Steikið grænmetið og kjúklinginn saman og kryddið, salsasósur og rjómaostur sett saman í pott og hitað þangað til rjómaosturinn er bráðnaður. Setjið þá allt saman, grænmetið, kjúklinginn og sósuna. Leggið eina vefju í eldfast mót og ausið sósunni með innihaldinu yfir, setjið aðra vefju og gerið eins þangað til mótið er orðið fullt og stráið rifnum osti yfir og bakið þangað til osturinn er bráðnaður. Borið fram með Nachosi.

RÉTTUR 2
Æðisleg sósa með grillinu í sumar

„Þessi sósa er mikið notuð á okkar heimili, sérstaklega með grilluðum mat. Hún er góð með öllum mat en þó sérstaklega með grilluðum kjúkling og sætum kartöflum.“

1 dós sýrður rjómi, við notum alltaf 18%
1  hvítlauksrif
biti af engiferrót, gott er að  miða við svipaða stærð og hvítlauksrifið.

Pressið hvítlaukinn og engiferrótina saman við sýrða rjómann í sitt hvoru lagi og hrærið. Ef ykkur finnst þetta vera of sterkt þá minnkið hvítlaukinn og engiferrótina. 

RÉTTUR 3
Spínatsalat

1 rauðlaukur
100 g waterchestnuts
1 poki frosið spínat (afþýtt)
1 pk. púrrulaukssúpa
1 dós sýrður rjómi
3 msk grísk jógurt

Takið spínatið og leggið á þerripappír og reynið að vinda vökvann eins vel og þið getið. Saxið laukinn og hneturnar smátt og setjið í skál,  Klippið spínatið einnig smátt og bætið út í. Sigtið súpuna yfir þannig að ekki fari neitt gróft úr henni í salatið. Bætið sýrðum rjóma og jógúrtinu saman við og hrærið. Mjög gott er að gera þetta salat daginn áður en á að borða það. Borið fram með brauði eða kexi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir