Rækjukokteill og sjávarréttasúpa

Matgæðingarnir Andri og Þórunn. Mynd úr einkasafni.
Matgæðingarnir Andri og Þórunn. Mynd úr einkasafni.

Matgæðingar vikunnar í 31. tölublaði Feykis árið 2015, þau Andri Jónsson og Þórunn Inga Kristmundsdóttir frá Hvammstanga, buðu lesendum upp á girnilegar þrírétta uppskriftir með sjávarréttaþema; rækjukokteil í forrétt, sjávarréttasúpu í aðalrétt og heimatilbúinn ís í eftirrétt.

Forréttur
Rækjukokteill 

rækjur
paprika
gúrka
sítróna 

Aðferð: Hér er magn hvers hráefnis smekksatriði. Það eina sem við gerum er að skera grænmetið í smáa bita, blöndum þessu svo saman og setjum í fallega skál eða disk. 

Sósan út á rækjukokteil:

1½ dl majones
1½ dl sýrður rjómi (18% eða 36%)
2-3 msk tómatsósa
1 msk Worchester sósa  
nokkrir dropar Tabasco sósa
smá safi úr sítrónu
svartur pipar 

Aðalréttur
Sjávarréttasúpa fyrir 4

1 laukur
2 hvítlauksrif
1 paprika 

saxið lauk og paprika og merjið hvítlaukinn og steikið létt í smá olíu. 

8 dl vatn
2 stk fiskiteningar 

Aðferð: Setjið grænmetið í pott og bætið vatni og teningunum út í og látið suðuna koma upp! Þennan part af súpunni er gott að gera fyrr til að fá meira bragð, en þó er allt í lagi að gera hana í einni bunu líka.

400 g fiskur að eigin vali, skorinn í bita
200 g smurostur (ég nota oftast papriku)
½ dl rjómi
1 tsk þurrkað dill
salt og pipar eftir smekk 

Ef fólk vill er hægt að þykkja súpuna örlítið með maizenamjöli en það er algjörlega smekksatriði. Með súpunni er frábært að skera niður iceberg kál og setja yfir á diskinum.


Eftirréttur
Heimatilbúinn ís 

4 eggjarauður
4 msk sykur
1 msk vanillusykur
½ l rjómi 

Aðferð: Eggjarauðurnar eru stífþeyttar svo er sykri og vanillusykri bætt út í og þeytt aðeins meira. Rjóminn er þeyttur í sér skál og svo er öllu blandað saman. Þá má setja hvers kyns nammi, ávexti eða það sem hugmyndaflugið býður upp á í það skiptið. Við kjósum þó yfirleitt að hafa hann bara með vanillu.

Verði svo öllum að góðu!

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir