Þrír gómsætir eftirréttir

Ólöf Ösp og Snorri Geir með dætrum sínum tveimur. Mynd: Davíð Már.
Ólöf Ösp og Snorri Geir með dætrum sínum tveimur. Mynd: Davíð Már.

Ólöf Ösp Sverrisdóttir og Snorri Geir Snorrason á Sauðárkróki voru matgæðingar Feykis í 12. tölublaði ársins 2017. 
Ólöf hefur orðið: „Ég ætla að byrja á því að þakka Ingu Skagfjörð fyrir að koma mér í þessa klípu, að ég þurfti að leggja höfuðið í bleyti til að koma mér í þessi skrif. Ég ætla ekki hefðbundnu leiðina og koma með forrétt, aðalrétt og eftirrétt heldur ætla ég að gefa ykkur þrjár uppskriftir af uppáhalds eftirréttunum mínum. Þessar gómsætu uppskriftir er tilvalið að hafa í veislum, hitting eða bara einn góðan sunnudag. Vonandi munuð þið njóta góðs af þeim."

Frönsk súkkulaðikaka

Botn:
2 dl sykur
200 g smjör
200 g suðusúkkulaði
1 dl hveiti
4 stk egg

Súkkulaðikrem:

150 g suðusúkkulaði
70 g smjör
2-3 msk síróp

Aðferð-botn:
Þeytið eggin og sykurinn vel saman. Bræðið smjörið og súkkulaðið saman við vægan hita í potti. Blandið hveitinu saman við eggin og sykurinn. Bætið bráðnu súkkulaðinu og smjörinu að lokum varlega út í deigið. Bakið í vel smurðu tertuformi (ath. ekki lausbotna) við 170°C í 30 mínútur.

Aðferð – krem:
Látið allt saman í pott og bræðið saman við vægan hita. Kælið bráðina svolítið og berið hana síðan á kökuna þegar hún hefur kólnað.

Kakan á að vera blaut í miðjunni. Gott er að bera hana fram með rjóma eða ís og berjum, til dæmis jarðarberjum, hindberjum eða bláberjum.


Toblerone súkkulaðimús

500 g Toblerone súkkulaði (gróft saxað)
150 g smjör
4 egg
600 ml stífþeyttur rjómi

Aðferð:
Byrjið á því að bræða gróft saxað Toblerone og smjör yfir vatnsbaði. Þegar súkkulaðiblandan er slétt og fín er hún tekin af hitanum. Eggjunum bætt út í, einu í einu og hrært vel á milli. Síðan er súkkulaðiblöndunni hellt varlega saman við stífþeyttan rjómann og að lokum er blöndunni skipt niður í 8-12 glös/skálar.

Kælið í lágmark 3 klst. Það getur svo verið gaman að skreyta þetta með smá þeyttum rjóma og berjum eða súkkulaðispænum.

Kornflexmarengs

Marengs:
220 g sykur
4 eggjahvítur (stór egg)
2½ bolli kornflex
1 tsk lyftiduft

Fylling:
5 dl rjómi
Nóg af Nóa kroppi 

Karamellukrem:

4 eggjarauður
4 msk flórsykur
100 g Pipp súkkulaði með bananakremi
2 msk rjómi eða mjólk

Aðferð:
Ofn hitaður í 120 gráður við blástur. Eggjahvítur, lyftiduft og sykur er stífþeytt. Þá er kornflexi bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Marengsinum er skipt í tvennt og hann mótaður í tvo jafnstóra hringi á sitthvora plötuna. Því næst er sléttað jafnt úr honum með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C í heitum ofni í ca. 50 – 60 mínútur.

Rjóminn er þeyttur, Nóa kroppinu er bætt út í rjómann og sett á milli.

Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Pippið er sett í skál ásamt 2 msk af rjóma eða mjólk og brætt yfir vatnsbaði. Eggjarauðu- og flórsykurblöndunni er svo blandað út í súkkulaðið. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir