Rabb-a-babb 116: Elísabet Sig

Nafn: Elísabet Sigurðardóttir.
Árgangur: 1974.
Fjölskylduhagir: Gift Halldóri Þorleifs Stefánssyni frá Laugamýri í Lýtingstaðahreppi. Við eigum þrjú börn, Nínu Margréti 13 ára, Sigurð Hákon 8 ára og Magnús Pálma 6 ára.
Búseta: Undanfarin 13 ár í Luxemborg, hjarta Evrópu, eins og heimamenn kalla það.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Ég er dóttir Sigurðar Ágústssonar, fyrrum Rafveitustjóra á Sauðárkróki og Önnu Rósu Skarphéðinsdóttir, fyrrum heimilisfræðikennara við Árskóla. Æskuheimilið er á Hólaveginum þar sem stutt var yfir til Erlings eða í Verslunina Tindastól, eins og hún hét, þar sem Silló stóð vaktina.
Starf / nám: Kláraði öll skólastig sem í boði voru á Króknum á þeim tíma og fór í Háskóla Íslands í félagsfræði. Kláraði seinna kennsluréttindarnám frá háskólanum á  Akureyri. Kenni í dag íslenskum börnum í Lúxemborg íslensku og er yoga kennari.
Hvað er í deiglunni: Koma til Íslands í sumar og ferma frumburðinn í Lýtingstaðahreppi og njóta samveru með ættingjum og vinum sem við því miður hittum alltof sjaldan.

Hvernig nemandi varstu? -Sem barn kennara við skólann þá reyndi ég að vera nokkuð áhugasöm um námið. Árgangur ’74 lét ekkert fara lítið fyrir sér svona dags daglega og ég er ekkert hissa að t.d Björn Jóhann sem kenndi okkur einn vetur (bróðir Óskars Skólastjóra) sé ekki kennari í dag!

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum?
 -Uppnám í Safnaðarheimilinu fyrir athöfn þegar verið var að reyna að klæða fermingarbörnin í kirtlana, flissið þegar Séra Hjálmar bauð upp á „blóð Krists“ og svo auðvitað hlaðborðið í veislunni á Hólaveginum á eftir athöfnina og myndatökuna hjá Stebba Ped.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? 
-Í gömlum minningarbókum stendur að ég ætli að verða búðarkona – ég vann við það í versluninni Tindastóll í sumarvinnu í nokkur ár þannig að það rættist. Ég man að ég ætlaði alls ekki að verða kennari en það er nú það sem ég vinn við í dag!

Hvað hræðistu mest? 
-Í leikfimi hjá Árna Stef hræddist ég mest að reyna að hoppa yfir stöngina í hástökki en ætli ég hræðist ekki mest í dag að eitthvað komi fyrir mína nánustu.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? -Everything I do, I do it for you með Bryan Adams hljómaði í græjunum í H10 ásamt REM, Losing My Religion og Wind of Change með Scorpions. Annars var stundum stillt á Rás FÁS og hlustað á Sigga Geit, Heiðar hennar Völu Báru og fleiri snillinga.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? -Úr þessu er ólíklegt að ég syngi í Kareókí, síðast þegar ég reyndi þá var það á Sam´s Bar í Kaupmannahöfn en Selma Barðdal og Björgvin Reynis hleyptu engum öðrum að míkrafóninum (sem var kannski eins gott).

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? -Þrátt fyrir að búa ekki á Íslandi þá er eina sjónvarpstöðin heima hjá mér  RUV og ég á það til að horfa á Landann ef ég man eftir að kveikja á sjónvarpinu.

Besta bíómyndin? -Ég sá Flashdance í Bifröst á Sæluviku árið 1984 og fannst hún frábær. Þarf eiginlega að fara að horfa á hana aftur til að athuga hvort hún sé jafn frábær í dag. Annars get ég mælt með myndinni The Shift sem hægt er að finna á Youtube.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? -Sunnu Gestsdóttur – ekki spurning – og svo Annie Mist.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? 
-Ég er nokkuð góð í að dreifa verkefnum niður á aðra heimilismeðlimi!

Hvert 
er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  -Lærði fullt af trixum hjá heimilisfræðikennaranum þannig að flest allt sem ég geri í eldhúsinu flokka ég sem snilldarverk, aðrir eru ekkert endilega sammála mér!

Hættulegasta helgarnammið? -Appolólakkrís, fæst sem betur fer ekki hér í búðum en borða þeim mun meira af honum þegar ég er á Íslandi.

Hvernig er eggið best? -Páskaegg? Annars eru egg snilldarmatur sem enda oftast steikt á pönnu.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? -Óstundvísi.          

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? 
-Óstundvísi.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun?  
-„Hamingjan er hér“ eða Happiness is a journey, not a destination.

Hver er elsta minningin sem þú átt? -Frá leikskólanum á Víðigrundinni þar sem við Brynja vinkona vorum að vega salt alla daga og Helga fóstra passaði upp á að allir fengju Lýsi eftir matinn.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? -Steini sterki sem á það til að kvefast á ögurstundu og missa þá ofurkraftana sína. Seinheppinn en þetta reddaðist alltaf í lokin.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? -Ég vil bara alls ekki vera nein önnur en ég er og alls ekki fræg. Þannig að það er pass við þessari spurningu.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? -Falsarinn eftir Björn T.H Björnsson og svo hefur Pétur Gunnarsson alltaf verið í uppáhaldi.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? -Merci.

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? -Fyrir mig eru það klárlega foreldar mínir, systkyni, maki og börn.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? -Ég er nokkuð sátt í núinu bara og væri frekar til í að fara 100 ár fram í tímann til að sjá hvernig stemmingin á Jörðinni verður þá.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu...
í heimsreisu með viðkomu í sem flestum löndum.  Byrjum á Balí.

Ef þú ættir að dvelja alein á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? -Ég er nú ekkert spennt fyrir þessu. Væri helst til í að fara út í Drangey
í dagsferð og væri þá með nesti með mér, myndavél og góða bók.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir