Rabb-a-babb 131: Sirrý

Nafn: Sigríður Huld Jónsdóttir.
Árgangur: Eðalinn 1969.
Fjölskylduhagir: Gift Svafdælingnum Atla Erni Snorrasyni og eigum við þrjú börn.
Búseta: Akureyri.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Dóttir Jóns Dalmans sem lengi keyrði hjá Bjarna Har og Lillýar Sím sem m.a. vann í kjörbúðinni hjá Sveini. Mamma og pabbi bjuggu í Biskupstungunum þegar ég fæddist en við fluttum síðan á Krókinn þegar ég var líklega u.þ.b. 3ja ára. Bjó um tíma á efri hæðinni í Bláfelli og man aðeins eftir mér þar. Eftir að mamma og pabbi skildu þá bjó ég um tíma bæði í Eyjafirði og Reykjavík en flutti aftur á Krókinn um 9 ára aldurinn og var þar meira og minna þar til riddarinn á hvíta hestinum kom í Villa Nova og fór með mig yfir Tröllaskagann.
Starf / nám: Skólameistari VMA og bæjarfulltrúi á Akureyri. Er hjúkrunarfræðingur og framhaldsskólakennari með diplómu í opinberri stjórnsýslu.

Hvað er í deiglunni: Átta mig á því hvert Ísland er að stefna.  


Hvernig nemandi varstu?  Frekar góður held ég bara. Oftast stillt fyrir utan nokkur prakkarastrik sem ég var véluð í af bekkjarfélögunum.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum?
 Hláturskastið sem ég og Kristín Gunnars fengum í miðri athöfn í Sauðárkrókskirkju. Man ekki lengur út af hverju það var,  kannski var það hárið á Helgu Stefáns sem var litað eins og söngvarinn Limalh (hver man ekki eftir honum!). Þess má geta að ég hef aðeins einu sinni svindlað á prófi og það var í kristinfræðiprófi hjá séra Hjálmari og hann nappaði mig auðvitað með svindlmiðann sem ég þurfi auðvitað ekkert á að halda en allir hinir í bekknum voru líka með svindlmiða svo ég varð að gera eins og hinir. Ég og einn annar bekkjarbróðir minn tókum á okkur sökin fyrir alla hina og höfum ekki enn fengið þakkir fyrir.  Á fermingardaginn tók séra Hjálmar fast í höndina á mér þegar hann sagði við mig að vera trú allt til dauða. Ég hef reynt að standa mig og fara eftir því.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? 
Fornleifafræðingur.

Besti ilmurinn? Vorið.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið?  Var nýbyrjuð að hlusta á U2, annars var mikið hlustað á Duran-Duran á þessum árum. Líka Stuðmenn, Bubba og einhverja hljómsveit sem var kölluð Bad Boys (!). Svo fór maður á góð böll með FÁST. Það toppar samt ekkert Stuðmannaball í Miðgarði eða Húnaveri á þessum árum.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí?  House of the Rising Sun! Yrði afleitt.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu?  Get dottið ofan í þætti eins og núna er það helst House of Cards og danskir spennuþættir. Mátti helst ekki missa af Lieglad. Bíð enn eftir nýrri syrpu af Sex in the City (enn með upphafslagið sem hringitóninn í símanum mínum).

Besta bíómyndin (af hverju)?  Grease – sá hana óharnaður unglingurinn í Bifröst hjá Munda, fannst myndin æðisleg og er enn ein af mínum uppáhaldsmyndum. John Travolta var bara eitthvað svo með' etta og svo tónlistin.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á?  Bara hafa það klént; börnin mín.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili?  Þrifin á klósettunum og skrifa jólakortin.

Hvert 
er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Beikonvafinn skötuselur í koníakslegi – er reyndar oftast grillaður og allt of langt síðan ég eldaði hann síðast. Auglýsi hér með eftir skötusel.

Hættulegasta helgarnammið?  Lakkrís.

Hvernig er eggið best?  Rétt rúmlega linsoðið.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?  Óstundvísi.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? 
Óstundvísi og óheiðarleiki!

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun?  Brostu með hjartanu.

Hver er elsta minningin sem þú átt?  Óli bróðir að pína mig. Hef fyrir löngu fyrirgefið honum það.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera?  Sátt við mig í eigin skinni en ef ég gæti verið einhver annar í einn dag myndi ég vilja vera Sýrlandsforseti, segja af mér og semja um frið.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur?  Hef lesið margar góðar bækur og hef mjög gaman að því að lesa. Af Skagfirskum bókum nefni ég Jarðlag í tímanum eftir Hannes Pétursson. Eins hef ég frá unglingsaldri alltaf haft gaman af því að lesa Gyrði Elíasson og er ég núna að klára bókina Milli tjánna sem er full af furðulegum, stundum draugalegum persónum sem gera ýmsa skrítna hluti. Sögurnar hans eru líka oftast stuttar svo ég næ að klára þær áður en ég sofna ofan í bókina.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið?  Veit ekki hvort það er einhver frasi sem ég nota mikið. En líklega er algengasta sms-textinn sem ég nota ok. - og þumalinn upp á Facebook.

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati?  Vigdís Finnbogadóttir er mikilvægasta persóna síðu 100 ára.


Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu?  Maður getur ekki breytt því sem liðið er en maður getur reynt að sættast við fortíðina. Freistandi að segja eitthvað gáfulegt úr heimssögunni en ég væri alveg til í það að fara aftur til ársins 1962, í íbúð Marilyn Monroe og fara á trúnó með henni. Fá bæði Hollywood og Washington slúðrið hjá henni og helst forða henni frá örlögum sínum það ár sem var hennar síðasta.  

Hver væri titillinn á ævisögu þinni?  ARG!

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu...
til Ástralíu með millilendingu á Hawaii.

Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér?  Penna, skrifblokk og góðan hníf.

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina:  Fara til Ástralíu með eiginmanninn og börnin. Læra að fljúga. Hefði einhvertíman sagt; eignast bústað í Skagafirði, en það hefur ræst. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir