Rabb-a-babb 132: Guðrún Pálma

Guðrún Pálma og Gísli frá Lundi.
Guðrún Pálma og Gísli frá Lundi.

Nafn: Guðrún Hulda Pálmadóttir.
Árgangur: 1972.
Fjölskylduhagir: Bý með honum Gísla frá Lundi og saman eigum við Rakel Bryndísi, Rúnar og Kára... og ömmustelpurnar Bryndísi Huldu og Kristbjörgu Önnu.
Búseta: Borgarnes.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Dóttir Pálma Rögg og Binnu Óla. Alin upp á Hofsós City.
Starf: Bókari hjá Borgarbyggð.
Hvað er í deiglunni: Fara með Freyjukórnum mínum til Írlands eftir tæpa viku.

Hvernig nemandi varstu? Til mikilar fyrirmyndar, með eindæmum prúð.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Eftirminnilegast úr athöfninni var að að það leið yfir Kidda og úr veislunni að fá krullujárn vegna þess að þá var ég með rosalega miklar krullur . Annars mjög góður dagur.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Hárgreiðslu- og búðarkona. Takið eftir að ég er búin með búðarferilinn en get ekki enn greitt mér (eins og sést).

Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Það var Lína mín, Kalli bangsi og Piccaló, ógurlega ófríður bangsi en góður og frá góðum frænda.

Besti ilmurinn? La vita belle frá Lancome.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Ég hlustaði auðvitað á Sigga ökukennara en annars er minn tónlistarsmekkur ekki fyrir viðkvæma. Núna hlusta ég til dæmis mest á Dúmbó og Steina.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Rabbabara Rúna eða Traustur vinur.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Landanum (hef ekki kjark í að skrifa annað).

Besta bíómyndin? Stella í orlofi. Hún er snilld og frasar úr henna lifa enn: „Hver á þennan bústað, já eða nei?!“

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Einari Friðrik Hólmgeirssyni, Síðan mætti skrifa langan lista af öðrum frægum köppum austan vatna.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Flest.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Maðurinn minn.

Hættulegasta helgarnammið? Súkkulaði og ísköld mjólk.

Hvernig er eggið best? Í eggjakökuni.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Það er nú ekkert.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Það er hins vegar fleira.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun?  Það er ekki eftir það sem búið er.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Ég man allt frá því ég var ungabarn, mest þó eftir því að ég var sterkari en Óli bróðir og er það enn.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Horfði aldrei á teiknimyndir, helst þó Fróða í Einu sinni var. En horfi núna aðallega á Hvolpasveitina og Stubbana.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Hallgerður Langbrók af því hún var svo mikill töffari.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Allar bækurnar eftir Camilu Lackberg,  þær eru bestu spennusögur sem ég hef lesið.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Nú er ég auralaus.

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Í mínu lífi voru það ömmur mínar Guðrún (Rúna) og Hulda.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Örfá ár, heim og tæki gott spjall, smá söng og eitt hláturkast með Rakel systir.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Ókeypis ráðgjöf.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... ...til Köben að knúsa Huldu frænku.

Ef þú ættir að dvelja alein á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Prjónadótið, símann og ísskápinn.

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: G in 3:  Gifta mig , grenna mig og gefa afkomendum mínum endalausa ást og umhyggju.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir