Rabb-a-babb 137: Sóley Björk

Nafn: Sóley Björk Guðmundsdóttir.
Árgangur: 1988.
Fjölskylduhagir: Í sambúð með Loga Fannari Sveinssyni frá Víðimel og á gullfallegan bíl, Subaru Trendy, sem er tveimur árum yngri en ég. Sá er erfðagripur frá Fjólu ömmu minni svo hann verður að teljast til fjölskyldunnar.
Búseta: Höfuðborgin, nokkuð miðsvæðis í ofanálag.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Ég er alin upp í Gamla læknishúsinu á Króknum, dóttir Sigríðar Sigurjónsdóttur og Guðmundar Arnar Ingólfssonar. Foreldrarnir fluttu reyndar frá Sauðárkróki á undan mér en ég er svo heppin að eiga annað heimili hjá Jóhanni á Áka og Hrönn í Dalatúninu.
Starf / nám: Ég er þjóðfræðingur með mastersgráðu í hagnýtri menningarmiðlun, öll þessi ósköp í boði Háskóla Íslands. Hvað vinnu varðar sé ég um Viðburðavef mbl.is og Iceland Monitor (enska hluta mbl) og skrifa greinar inn á báða vefi.
Hvað er í deiglunni: Andlegur undirbúningur fyrir Laufskálarétt svona mestmegnis.

Hvernig nemandi varstu?  Ég var latur nemandi sem bjó svo vel að vera góður páfagaukur. Veit ekki hvað Kristbjörg Kemp gaf mér oft hornauga fyrir að vera ekki búin með heimavinnuna mína í ensku eða fyrir að skrifa hana upp eftir Ingibjörgu vinkonu í byrjun tímans.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum?
 Fermingarveislan mín var haldin í sýningarsalnum á bílaverkstæðinu Áka, þegar líða var tekið á veisluna fóru nokkrir að spila körfubolta inn í viðgerðarsalnum. Svenni hálfbróðir átti lélegt skot á körfuna, boltinn skoppaði af hringnum, í gegnum hurð og inn í salinn, upp á kökuborðið og náði á undraverðan hátt að skoppa á fimm kökum áður en hann nam staðar í rjómatertu.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ruslakall, ég átti lítinn dótaruslabíl og langaði afskaplega mikið að vita hvar ruslið allt endaði.

Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Bílabraut með einum rauðum og einum gulum kappakstursbíl. Það var agalegt maus að setja hana upp svo það var helst gert þegar við systur vorum veikar og það þurfti að leita í örþrifaráð til að hafa ofan af fyrir okkur.

Besti ilmurinn? Ilmurinn af fyrsta gróðrinum á vorin.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst? Ég hlustaði líklega mest á hvað sem var í spilun á FM957, sem var í gangi alla daga á Ábæ þar sem ég vann. Heima fyrir á Aðalgötunni var það helst Metallica sem fékk að hljóma allkröftuglega í heimabíóinu, þegar Stebbi Pet var búin að loka það er að segja (íbúðin var fyrir ofan ljósmyndabúðina).

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Ég er talsvert hrifnari af því að horfa og hlusta á aðra í kareókí í stað þess að taka lagið sjálf, ég reyni að hlífa mér og öðrum fyrir eigin rödd.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu?

Útsvar, Top Chef og gömlu Top Gear eru helstu þættirnir sem ég reyni að ná. Annars er ég af þeirri kynslóð sem tilbiður tölvuna frekar en sjónvarpið.

Besta bíómyndin? Þrátt fyrir mikið áhorf á Star Wars, Lord of the Rings og álíka myndir í gegnum tíðina held ég að ég þyrfti að setja V for Vendetta. Boðskapurinn er flottur.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Körfuboltamanninum mikla Friðriki Hrafni Jóhannssyni.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Elda og keyra. Það eru mögulega ekki allir sammála þessum fullyrðingum.

Hvert 
er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Allt sem ég geri í eldhúsinu er snilldarverk. Nema venjuleg brún sósa, ég á mjög erfitt með að gera eitthvað venjulegt og þarf alltaf að vera að bæta í og breyta til, kærastanum til mikillar gleði…!

Hættulegasta helgarnammið? Helgar…? Ég borða súkkulaði við öll tækifæri, er að smjatta á ljómandi góðu 70% í þessum skrifuðu orðum.

Hvernig er eggið best? Hleypt, ekki verra ef því fylgir beikon og hollandaise sósa.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Að standa fyrir utan húsið mitt með skröpuð hné, ég hef gert ansi mikið af því að detta í gegnum tíðina.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Viggó Viðutan

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Rithöfundurinn J.K. Rowling, ég myndi skrifa fleiri galdrabækur í anda Harry Potter.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur?  J.R.R. Tolkien, Lord of the Rings, ekki bara eru bækurnar ótrúlega vel ígrundaðar og skemmtilegar heldur ruddu þær brautina fyrir hafsjó af skemmtilegum bókum.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Korteri of sein

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... til Perú. Ég var skiptinemi þar fyrir 10 árum síðan og því tilvalið að fagna tugnum með heimsækja Amazon frumskóginn, eyðimörkina og kíkja til fjölskyldunnar sem ég bjó hjá uppi í Andes fjöllunum.

Ef þú ættir að dvelja alein á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Vasahníf, ef hann yrði ekki tekinn af mér í tollinum á leiðinni (nokkuð sem hefur mögulega gerst áður – oftar en einu sinni), veiðistöng og mjög mikið af súkkulaði. 

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Fara í fallhlífarstökk, heimsækja Kambódíu og borða ígulker (mig hefur alltaf langað til að vita hvernig það bragðast).

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir